138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:20]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins vegna orða hv. þingmanns á undan, 1. þm. Norðvest., Ásbjörns Óttarssonar, sem er reyndur sveitarstjórnarmaður og þekkir þau mál út og inn og hann varpaði fram þeirri spurningu af hverju væri verið að gera sveitarfélögin að einhverju sérstöku tilraunadýri. Ég held að það hafi ekki verið hugmynd framkvæmdarvaldsins eða löggjafans í upphafi. Það er töluvert langt síðan þetta mál var flutt fyrst og mælt fyrir því. Það er verið að ræða það í þriðja sinn núna og tíminn líður náttúrlega og það styttist í sveitarstjórnarkosningar. Menn ætluðu sér auðvitað að klára málið þegar það kom fyrst fram í mars sl. en það tókst hins vegar ekki. Þá var ríflega ár til kosninga og því hægur vandi að klára málið og þá hefðu menn haft nægilega mikinn tíma til undirbúnings.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri og fagna yfirlýsingu þingmannsins um tilraunasveitarfélög vegna þess að hv. þingmaður er fyrsti þingmaðurinn fyrir utan þá sem hér stendur sem hefur tekið undir þá hugmynd. Ég varpaði henni fram í fyrirspurnatíma þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði mig að því hvort mér fyndist koma til greina að innleiða þetta fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Þá viðraði ég þá hugmynd að ef þetta næðist ekki fyrir kosningarnar í vor mætti hugsa sér að heimila þeim sveitarfélögum sem samþykktu það með auknum meiri hluta að prófa þessa leið, að gera það og þá væri það þeirra að ákveða hvort þau vildu fara þessa leið eða ekki. Mér finnst vel koma til greina að skoða það að sveitarfélög sem vilja gerast einhvers konar tilraunasveitarfélög í þessum efnum geri það einfaldlega.