138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í gær stóð yfir umræða í nokkrar klukkustundir um frumvarp ríkisstjórnarinnar um persónukjör. Fulltrúar flestra flokka á þingi tóku virkan þátt í þeirri umræðu sem var gagnleg og forvitnileg. En hins vegar vakti það athygli mína að enginn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók þátt í þeirri umræðu og voru þó tækifærin mörg og eru reyndar þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs allmargir, 14 ef ég man rétt, en enginn þeirra tók þátt í þeirri umræðu. Það er þess vegna dálítið erfitt að átta sig á afstöðu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þessara frumvarpa. Þau eru borin fram í nafni og á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð á aðild að. Þessi frumvörp hafa verið samþykkt til framlagningar í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – framboðs og koma þá leiðina inn í þingið. Frumvarpið er með öðrum orðum á fulla ábyrgð ráðherra og þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Þetta mál hefur komið áður til umræðu í þinginu. Það gerði það í sumar. Allsherjarnefnd fékk málið til meðferðar og sendi það út til umsagna og meðal þeirra umsagna sem barst var umsögn frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Í þeirri umsögn sem undirrituð er af stjórn þessarar hreyfingar segir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggi til að frumvörpunum verði vísað í umræðu um stjórnlagaþing, sem sagt ekki í umræðu á Alþingi heldur í umræðu á stjórnlagaþingi, og segir svo:

„Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun áður en það er tilbúið til afgreiðslu.“

Það er stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) sem undirritar þetta. Hver er afstaða þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs?