138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er óviðbúinn þessari fyrirspurn þar sem ég var á fundum í morgun. Ég var að koma af tveimur fundum, fyrst í utanríkismálanefnd og svo í Þingvallanefnd þannig að ég vissi ekki af þessari fyrirspurn fyrr en ég gekk inn um dyrnar. Ég sat á þingfundum í gær (Gripið fram í.) þangað til ég varð að víkja af persónulegum ástæðum þegar umræðan var um persónukjör. Ég bið hv. þm. Birgi Ármannsson að hafa það í huga og skilja það eins og hann getur.

Þetta frumvarp um persónukjör var samþykkt til framlagningar á þinginu gegnum þingflokkinn með fyrirvörum sem lúta m.a. að stjórnarsamþykkt stjórnar VG og þeir standa. Það má e.t.v. segja að það sé í anda nýrra vinnubragða að afgreiða málið til þinglegrar meðferðar á þinginu til að gefa Alþingi meira vægi. Ég hef ekki langa þingreynslu, þó frá árinu 2007, en þær gleðilegu breytingar urðu frá 1. febrúar, reyndar í minnihlutastjórn, að þinginu var veitt meira vægi. Menn voru ekki búnir að greiða atkvæði sitt áður en málið kom inn í sali þingsins. (Gripið fram í.) Nú hefur það breyst. Ég nefni meðferð Icesave-málsins og annað. Varðandi frumvarp um persónukjör er ég algerlega inni á þeirri lýðræðislegu og þingræðislegu línu að leggja málið opið í allsherjarnefnd til umræðu, til umfjöllunar, til að vega og meta kosti þess og galla og taka svo afstöðu þegar umsagnir og umfjöllun nefnda er lokið.