138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir það hvað hún fór vel yfir þetta mál en það sem mér finnst þurfa að koma fram, og það hefur reyndar komið fram hjá ýmsum, er að það þarf að skoða mjög gaumgæfilega hvort stundað sé undirboð á markaðnum. Það er mjög sérkennilegt að verð á sementi sé hugsanlega 52% af því sem það kostar í Danmörku, það vekur hjá manni tortryggni.

Síðan vil ég líka geta þess að allir starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa minnkað starfshlutfall sitt um helming og eru núna í hálfu starfi til að auka möguleikann á því að fyrirtækið geti lifað. Þá langar mig að beina því til hæstv. iðnaðarráðherra, vegna þess að boðaðir orkuskattar, sem koma henni reyndar jafnmikið á óvart og mér, munu að mati forsvarsmanna fyrirtækjanna, ef þeir ganga eftir, ganga af fyrirtækinu dauðu. Það liggur alveg klárt fyrir að ef það verður að veruleika mun það drepa niður fyrirtækið. Mig langar að beina því til hennar hvort hún hafi ekki verulegar áhyggjur af því.