138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þegar hæstv. ráðherra var búin að vera heila þrjá daga í stólnum hafði hún gefið sér tíma til þess að ákveða að það þyrfti að fara aftur af stað með skipulagsferlið og boða til þessa kynningarfundar. Ég hef miklar áhyggjur af því hvað þetta mál hefur dregist. Ég get ekki tekið undir að það sé dæmi um góða stjórnsýslu að draga mál endalaust, sérstaklega í ljósi þess að það er samþingmaður ráðherrans sem hefur hreinlega lagt sveitarstjórn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í einelti með allt að því 30–40 kærum og bréfum — bara vinna við að svara því hefur verið gífurlega dýr og kostnaðarsöm fyrir þetta litla sveitarfélag. Ég hef líka áhyggjur af því að þau vinnubrögð sem ráðuneytið hefur iðkað varðandi þetta mál dragi mjög úr áhuga heimamanna á því að vinna vel og stækka Þjórsárver, sem mér skilst að sé nú líka eitt af áhugamálum (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra. Ég vona svo sannarlega að þetta mál verði klárað núna hratt og vel því að sveitarfélagið hefur staðið sig mjög vel í sinni vinnu.