138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stjórnskipun Íslands.

[10:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í stjórnskipun Íslands tekur ríkisstjórn ekki sameiginlegar ákvarðanir, hún er ekki fjölskipað stjórnvald eins og það heitir á lagamáli. Það þýðir að hver ráðherra ber sín mál inn á fund ríkisstjórnar og fær þau samþykkt, kannski umorðalaust, nema annar ráðherra beiti neitunarvaldi eða að mál sé af þeirri stærð að formenn stjórnarflokkanna þurfi að véla um þau. Ég held að þetta sé best geymda leyndarmál íslenskrar stjórnskipunar og tel að margir kjósendur á Íslandi haldi að ákvarðanir í ríkisstjórn Íslands séu teknar sameiginlega eins og í fjölskipuðu stjórnvaldi, eins og t.d. í sveitarstjórnum. Þannig er það ekki.

Ég er þeirrar skoðunar að hrunið sl. haust hafi afhjúpað veikleikana sem eru innbyggðir í opinbera stjórnsýslu hér á landi, ekki síst innan Stjórnarráðsins. Í kringum ráðuneytin hafa risið ósýnilegir en oft ókleifir múrar og náin samvinna þvert á ráðuneyti verður að sama skapi seinleg og erfið. Oft þarf ekki annað en einn háttsettan embættismann sem dregur lappirnar til að koma í veg fyrir skilvirkt samstarf.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að nú sé rétti tíminn til að leggja yfirvegað mat á það hvort ríkisstjórn Íslands verði fjölskipað stjórnvald eins og sveitarstjórnir þessa lands. Af sjálfu leiðir að vinnubrögð batna og það sem enn meira máli skiptir er að þá bera allir ráðherrar í ríkisstjórn sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum hennar og eru líka upplýstir um allar ákvarðanir hennar og hvað þær þýða.

Mig langar, frú forseti, að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi íhugað að beita sér fyrir því að þetta verði skoðað og hverjar skoðanir hennar séu á því að breyta þessari stjórnskipun á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)