138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst til að undirstrika kjarnann í málinu er hér um að ræða, eins og ég nefndi áðan í andsvörum, nokkur vatnaskil í orkunýtingaráætlunum suður með sjó. Eins og fram hefur komið í umræðum í dag, bæði utan dagskrár og um þetta tiltekna þingmál, eru að sjálfsögðu uppi mjög skiptar skoðanir á því meðal þingmanna, og þær ná inn í alla flokka, um hvernig eigi að nýta orkuna, hvort eigi að byggja álver eða fara aðrar leiðir. Það er að sjálfsögðu verið að því líka en fyrir 2–3 árum náðist um það samstaða og var tekin um það ákvörðun að fara þessa leið hvað varðar orkunýtinguna út af Helguvík og byggja þar álver í fjórum áföngum þar sem hver áfangi tekur til sín tæplega 160 megavött. Það heppilega við verkefnið er að það er áfangaskipt þannig að hvað sem áfangarnir verða margir að lokum er hægt að byggja álverið í hóflegum áföngum, bæði hvað varðar efnahagsleg áhrif og uppbyggingu á orkumannvirkjum þar til hliðar. Staða orkuöflunar er sú sem fram kom áðan, Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið lán til að ráðast í hluta af áætluðum orkuöflunarframkvæmdum. Árið 2011 eru áætlanir um Hellisheiðarvirkjun upp á 90 megavött, stækkun á Reykjanesvirkjun upp á 50 megavött, Hverahlíðarvirkjun 2012 upp á 90 megavött, aftur stækkun á Reykjanesvirkjun o.s.frv. Þetta eru heppilegir áfangar til að byggja þetta mikla iðjuver sem mun skila mörgum störfum og mikilli erlendri fjárfestingu inn í landið. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins kemur fram að Helguvíkurverkefnið og tengdar framkvæmdir munu skila 400 milljörðum kr. inn í íslenskt þjóðarbú á árunum 2009–2015 og jafnframt metur fjármálaráðuneytið það svo að það auki landsframleiðslu að raungildi um 4,2% þannig að áhrifin af framkvæmdunum eru gífurlega mikil. Hér er um að ræða þúsundir starfa á uppbyggingartímanum, 2.000–3.000 störf, jafnvel rúmlega það þegar hæst stendur, og svo nokkur hundruð, 600–700, jafnvel upp í 1.000 föst störf þegar upp er staðið og álverið allt er komið til framkvæmda.

Ríkisstjórn Íslands hefur greitt götu þessara framkvæmda eins og annarra fyrirhugaðra nýfjárfestinga í orkumálum eins og nefnt hefur verið í dag hvað varðar gagnaverið uppi á Ásbrú á Vallarheiðinni þar sem um er að ræða orkuver sem skilar af sér talsvert mörgum störfum og tekur til sín 25 megavött. Er gaman að bera saman orkunýtinguna þar og í stærri og hefðbundnari iðjuverum eins og álveri þar sem að sjálfsögðu má ná mörgum störfum á virkjað megavatt í verkefnum eins og gagnaverum. Og það er ánægjulegt að það eru nokkuð mörg gagnaver í kortunum á næstu missirum. Það er ekki bara hjá Verne uppi á velli, það er líka hjá Greenstone sem nú hefur í hyggju að byggja a.m.k. tvö gagnaver til að byrja með, eitt á Norðurlandi og annað hugsanlega í Hafnarfirði. Þegar upp er staðið gætu þeirra gagnaver verið orðin á fimm stöðum á landinu. Þar dreifast mjög kraftarnir og er mjög ánægjulegt verkefni allt í heild sinni.

Úr því að talið berst að fjárfestingarsamningunum er mjög mikilvægt að þeim sé skapaður almennur rammi og þar með verði ferlið við gerð fjárfestingarsamninga gagnsærra og opnara en er í dag. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað rammalöggjöf sem mun leysa af hólmi ógagnsætt ferli við fjárfestingarsamningagerð og setja um það skarpan og skýran ramma og það er alveg á hreinu að slíkur lagarammi mun bæta samkeppnisstöðu Íslands sem fjárfestingarkosts. Því ber að fagna sérstaklega fyrirætlunum iðnaðarráðherra um að breyta gerð fjárfestingarsamninga yfir í almennan lagaramma út úr því ferli sem við þekkjum í dag. En þessi löggjöf er eins og hún er og við erum komnir á þann stað ef það hefur heimilað íslenska ríkinu að gera þennan fjárfestingarsamning sem Alþingi samþykkti í apríl við álver í Helguvík með þeim minni háttar breytingum sem við erum að ræða í dag. Það er algjör grundvöllur þess að þetta verkefni gangi fram og eins og ég sagði áðan getum við deilt um það endalaust í sjálfu sér hvernig við eigum að nýta orkuna. Það kemur samt alltaf að því að við höfum tekið ákvörðun um að nýta hana með þessum hætti á þessum stað og þá er um að gera að skapa um það sem breiðasta pólitíska samstöðu. Það heppilega við þessar nýfjárfestingar í orkumálum sem snúa að álverinu í Helguvík og tengdum framkvæmdum er að þær koma á besta tíma, öllu heldur í einhverjum mesta og versta samdrætti sem við höfum gengið í gegnum í áratugi, og því skiptir mjög miklu máli að framvindan sé með þeim hætti sem hér um ræðir, að Orkuveitunni hafi tekist að tryggja sér fjármagn til að ráðast í hluta af virkjunarframkvæmdunum og ESA hafi heimilað aðstoðina í gegnum fjárfestingarsamninginn sem við erum að ræða í dag. Því er framvindan á verkefninu með eins jákvæðum hætti og hugsast getur í því erfiða árferði sem við búum við á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Century sem á Norðurál þurfti fyrir það fyrsta að endurfjármagna verkefnið sjálft og fékk til þess þrjá erlenda banka. Norðurál hefur samið við bankana BNP Paribas, Société Générale og ING um umsjón með fjármögnun byggingar álversins í Helguvík og þeir bankar munu leiða verkefni og fjármögnun vegna framkvæmdanna á alþjóðlegum fjármörkuðum. Orkuveitan hefur núna fengið vilyrði hjá Evrópska þróunarbankanum til að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta eru grundvallaratriði, það væri ekki um að ræða nein verkefni, það væri eitt stórastopp ef þetta gengi ekki með þessum hætti, að Century og Norðuráli hefði tekist að fjármagna verkefnið sjálft með þessum erlendu bönkum, að Orkuveitan fengi fjármagn erlendis frá upp á tugi milljarða til að fara í orkuöflunina og að fjárfestingarsamningurinn sem gerður var og samþykktur á Alþingi í vor gengi eftir af því að hann er grundvöllur verkefnisins.

Vitnað er til þess að á Suðurnesjunum er atvinnuleysi mest á landinu öllu, 12–13%, gríðarlegt atvinnuleysi. Það högg kemur fram kannski núna af fullum þunga sem svæðið varð fyrir þegar herinn fór úr landi fyrir nokkrum missirum. Það var þá í sjálfu sér á besta tíma í háþenslu fasteignabólunnar þannig að margt það fólk sem missti störfin fékk önnur störf í tengslum við hana en svo brotnar þetta núna. Atvinnuleysið er verulegt og það er mikil óþreyja og örvænting á köflum eftir verkefnunum og þess vegna hafa stjórnvöld, ekki síst út af því alvarlega ástandi sem þar er, lagt sig fram um að vinna að þessum stóru verkefnum sem snúa að gagnaverinu. Það má nefna þotuverkefnin frá hollenska félaginu og síðan að sjálfsögðu álverið í Helguvík og kísilverksmiðju í Helguvík líka.

Allt er þetta á borðum stjórnvalda í einni eða annarri mynd hvað varðar fjármögnun orkuframkvæmda og gerð fjárfestingarsamninga. Iðnaðarráðherra undirritaði fyrir tæpum hálfum mánuði drög að fjárfestingarsamningi vegna gagnaversins á Vallarheiði, Ásbrú, og það gerir meira en bara að greiða götu þeirra framkvæmda. Því til grundvallar liggur að verkefnið gangi eftir. Allt eru þetta mjög jákvæðar fréttir inn í erfiða tíma og þess vegna er ástæða til að undirstrika hversu mikla þýðingu þetta frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra hefur. Það markar tiltekin vatnaskil í málinu og eyðir mikilli óvissu sem uppi var í þessu verkefni af því að auðvitað verður alltaf deilt um orkunýtingu. Við eigum að reyna að bera gæfu til að koma okkur upp úr skotgröfunum í því máli eins og kostur er, en um leið verðum við að átta okkur á því að orkunýting verður alltaf umdeild. Við eigum að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars í því og hafa umburðarlyndi fyrir ólíkum viðhorfum og straumum í þeim málum þvert á flokka inn í alla flokka. Ég held að þess séu dæmi að þingmenn allra flokka hafi kosið öðruvísi en meiri hlutinn þegar kemur að einstökum framkvæmdum. Ég man að Katrín Fjeldsted, fyrrverandi þingmaður sjálfstæðismanna, kaus á móti fyrirhugaðri Eyjabakkavirkjun og þannig má lengi telja. Það er ekkert nema jákvætt í sjálfu sér að ólík viðhorf til einstakra framkvæmda speglist inn í alla flokka. En það er líka mikilvægt að þegar niðurstöðu er náð þjappi menn sér saman um hana þannig að stór verkefni í atvinnumálum gangi fram þegar um það hefur verið tekin ákvörðun.

Svona er staða orkuöflunar, hún er jákvæð, svona er staða fjármögnunar, hún er jákvæð, og þessi verkefni sem við ræðum bæði svona til hliðar í dag, Verne Holding og gagnaverið, og álverið í Helguvík hjá Norðuráli, eru bæði á mjög góðu skriði, geta gengið eftir. Fjármögnun verkefnanna skiptir langmestu máli þegar um þetta ræðir.

Óvissan um fjármögnun Orkuveitunnar og HS Orku er stóra óvissan í málinu. Um leið og henni er eytt ganga þessi verkefni hratt og ágætlega fram. Okkar er að ná niðurstöðu í þessi mál og greiða síðan götu verkefnanna eins og kostur er. Það er mjög mikilvægt að nota endurnýjanlegar orkuauðlindir sem okkar miklu aflvélar við að endurreisa og styrkja stoðir efnahagslífsins á næstu árum og það er svo sannarlega verið að því. Þar eru sóknarfæri okkar Íslendinga umfram allt annað til að laða hingað erlendar fjárfestingar, stytta þannig samdráttarskeiðið og breyta samdrætti yfir í hagvöxt á stuttum tíma og síðast en ekki síst að draga hratt úr algjörlega óásættanlegu atvinnuleysi sem er núna staðbundið, en á stórum svæðum á landinu í kjölfar hins mikla samdráttar.

Stöðugleikasáttmálinn frá því í vor við aðila vinnumarkaðar undirstrikaði þetta mjög rækilega líka og ef vonir ganga eftir, t.d. hvað varðar Búðarhálsvirkjun, munu lífeyrissjóðirnir koma að fjármögnun þeirra framkvæmda. Þess vegna er ýmislegt mjög jákvætt að gera, sérstaklega í því hvernig við getum notað endurnýjanlega orkugjafa til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og til framtíðar og skotið þannig fleiri og styrkari stoðum undir efnahagslíf okkar og lífskjör.

Auðvitað hljóta menn að velta fyrir sér hvað við höfum fjárfest mikið í einni tegund stóriðju á skömmum tíma. Í dag erum við að framleiða um það bil 800.000 tonn af áli á ári. Ef Helguvík verður 360.000 tonn erum við komin þar í rúmlega 1,2 millj. tonna á ári og auðvitað er það gríðarlega mikil framleiðsla á einni tiltekinni tegund. Ef sá iðnaður lenti í mikilli kreppu mundi það þýða mikinn samdrátt og erfiðleika fyrir okkur. Þess vegna er það auðvitað skynsemispólitík líka, fyrir utan náttúruverndarsjónarmið og ýmislegt annað, að tala fyrir því að við reynum að dreifa fjárfestingunum og nýfjárfestingunum í orkumálum sem allra víðast.

Þess vegna eigum við að búa til sérstakan garðyrkjutaxta hvað varðar raforkuverð til garðyrkjuframleiðenda. Þess vegna eigum við að draga hingað fjárfestingar eins og gagnaverin sem taka til sín tiltölulega litla raforku en skapa mörg störf eins og ég nefndi áðan. Gagnaverið sem verður byggt upp á Ásbrú tekur 25 megavött en mun væntanlega skila vel yfir 150 störfum, jafnvel yfir 200 með afleiddum störfum. Við getum gert fjöldamargt og það er verið að gera fjöldamargt en Helguvíkurverkefnið er stórt og mikilvægt og það gengur bærilega fram miðað við erfiðar aðstæður og erfiðleika á undangengnum árum. Má kannski segja að það sé mikið afrek að hafa haldið verkefninu gangandi í gegnum allar þessar þrengingar, fengið endurfjármögnun á verkefnið sjálft, náð fjárfestingarsamningnum í gegn, Orkuveitunni og vonandi að HS Orku takist að fjármagna sínar framkvæmdir og geti þannig haldið verkefninu alltaf í stíganda. Það er búið að framkvæma heilmikið á svæðinu í Helguvík og beðið eftir því að framkvæmdirnar fari í fullan gang sem verður vonandi upp úr áramótum.