138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að vekja athygli á þessum alvarlega þætti í Icesave-málinu. Vaxtaprósentan hefur auðvitað komið til umræðu áður á fyrri stigum málsins en þessi nýju lánskjör sem Orkuveitunni bjóðast í sambandi við framkvæmdirnar á Hellisheiði sýna mjög glöggt að vaxtastigið í Icesave-samningnum er út úr öllu korti.

Þetta er auðvitað aðeins einn þáttur í þessu máli, fjölmörg önnur atriði verið hafa verið gagnrýnd í sambandi við Icesave-samkomulagið og frágang málsins. Alþingi samþykkti í sumarlok ýmsa fyrirvara og öryggisventla sem þáverandi meiri hluti á þingi var sannfærður um að væru gríðarlega mikilvægir. Þeir sem stóðu að þeirri samþykkt og raunar fleiri voru þeirrar skoðunar að málið hefði batnað til mikilla muna með því að setja inn þá fyrirvara sem þar komu inn. Þeir voru í mörgum liðum, vörðuðu marga þætti og því betur sem maður skoðar nýja frumvarpið sem nú er til meðferðar í fjárlaganefnd þingsins og þá fyrirvara eða þær leifar af fyrirvörum sem ratað hafa inn í samningana við Breta og Hollendinga sér maður að það stendur ekkert eftir af þeim öryggisventlum sem upphaflega voru inni í málinu. Öryggisventlarnir hafa einfaldlega verið teknir úr sambandi. Það er atriði sem þingið, hver og einn þingmaður verður að taka afstöðu til þegar frumvarpið kemur til afgreiðslu.

Það þýðir ekki, eins og mér hefur því miður sýnt allt of margir þingmenn stjórnarflokkanna gera, ekki allir en allt of margir þingmenn stjórnarflokkanna, þeir eru bara orðnir leiðir á málinu, loka augunum og eyrunum og segja: Við verðum bara að koma þessu frá, við verðum að klára þetta, hvað sem það kostar. (Gripið fram í: Vitleysa.) (Gripið fram í: Þetta er rétt.)