138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að á næstunni, eftir margra ára þrotlausa vinnu innan bankakerfisins, er komið að því að taka margar erfiðar ákvarðanir varðandi atvinnulífið í landinu eins og hér hefur komið fram. Það er mikilvægt að allt regluverk og vinnulag bankanna hvað þetta varðar sé eins opið og gagnsætt og mögulegt er og að jafnræðis og sanngirni sé gætt við afgreiðslu þeirra mála. Um þetta þarf ekki að deila í sjálfu sér.

En það hefði kannski farið betur á því að slík vinnubrögð hefðu tíðkast áður fyrr og fyrir hrun. (PHB: Hyggja að fortíðinni?) Já, við skulum rifja upp fortíðina, hv. þm. Pétur Blöndal, það má ekki gleyma henni því að af henni ættum við að læra. Það er bara rétt um hálft ár liðið núna í dag, rétt um sex mánuðir liðnir, virðulegi forseti, frá því að upp komst um leynilegar greiðslur úr Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma (Gripið fram í: Það voru ekki leynilegar ...) upp á tugi millj. kr. (Gripið fram í: … styrkur …) sem engum fannst neitt athugavert við þar til hrunið mikla varð. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það þurfti efnahagslegt hrun til, til að gerðar yrðu athugasemdir við það. Þar fór fremstur í flokki hv. þingmaður og málshefjandi þessarar umræðu, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem hafði forgöngu um þessar styrkveitingar, sem kallaðar hafa verið, í skjóli leyndar og ógagnsæis í bankakerfinu. (Gripið fram í: En spillingin …?) — Ég hef enga trú á því og ég ætla að treysta því (Gripið fram í.) að við höfum öll lært af þeim vinnubrögðum sem voru ástunduð (Gripið fram í.) fram að þessu. Ég ætla að treysta því (Gripið fram í.) að við höfum öll lært af því í öllum flokkum, hvort sem það er í Vinstri grænum, Samfylkingu, Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki vonandi, ég ætla að vona að við höfum lært eitthvað af þessu og við ætlum okkur að ástunda önnur og betri vinnubrögð (Gripið fram í.) en hingað til. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki hagað sér eins og hann sé hvítþvegið, nýstraujað lín sem aldrei hefur fallið kusk á því að þannig er það ekki. Við þurfum að ástunda ný vinnubrögð og við þurfum að koma bankakerfinu í gang með allt öðrum hætti en áður var, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, en án aðkomu Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) því að þjóðin á annað og betra skilið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)