138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ræða forsætisráðherra sem hér var flutt sýni okkur betur en nokkuð annað að mjög mikilvægt er að fara vel yfir þær hugmyndir sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram í efnahagsmálum því alveg er ljóst að við munum ekki fá neinar hugmyndir frá stjórnarheimilinu. Það er auðvitað mjög alvarlegt en til lítils að fara yfir það að á þeim tíma sem hefur liðið frá því að efnahagshrunið varð erum við ekki komin lengra heldur en raun ber vitni en það er auðvitað nokkuð sem eitt og sér er afskaplega alvarlegt.

Við sjálfstæðismenn höfum nálgast þetta með þeim hætti, virðulegi forseti, að við höfum komið með hugmyndir. Við komum með hugmyndir strax á vorþingi og síðan fylgjum við þeim eftir núna. Hugmyndir eru auðvitað ekki nóg því það verður að fylgja þeim eftir og því miður höfum við séð að einu hugmyndirnar sem hafa verið framkvæmdar af hálfu stjórnarflokkanna eru í rauninni það sem var samþykkt í fjárlagafrumvarpinu síðasta haust af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. En samt sem áður hefur þeim fjárlögum ekki verið fylgt eftir, eins og ný skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga sýnir.

Það er algerlega ljóst af þeim fjárlögum sem liggja núna fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að með því að koma þeim hugmyndum í framkvæmd munum við ekki vinna okkur út úr þessari kreppu. Þvert á móti er algerlega ljóst að þetta fjárlagafrumvarp með þeim skattahækkunum sem þar eru mun gera kreppuna enn dýpri og það mun taka okkur mun lengri tíma að vinna okkur út úr henni en þyrfti. Við höfum misst mjög dýrmætan tíma. Ég nefndi áðan út af framkvæmd fjárlaga að, eins og fram hefur komið, þá hefur verið haldið aftur af fjárfestingum og ef einhver skyldi spyrja: Af hverju er það slæmt? Þá er það slæmt einfaldlega vegna þess að á meðan fjárfestingar eru ekki til staðar þá búum við ekki til verðmæti. Ef við förum í fjárfestingar, sérstaklega þegar við fáum erlent fjármagn inn, þá erum við að búa til skattstofn og í sinni einföldustu mynd, ef við gæfum okkur það sem svolítið dæmi að við værum með tíu einstaklinga í landinu og af þeim væru þrír atvinnulausir þá eru mun minni skatttekjur af því heldur en ef við fengjum erlent fjármagn inn þannig að þessir þrír sem væru atvinnulausir gætu fengið vinnu og greitt skatta í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur frá hinu opinbera. Þetta er í raun og veru ekkert flóknara, virðulegi forseti. Þess vegna er þessi áhersla okkar á það að hleypa inn fjárfestingum. Málflutningur okkar hefur þó orðið til þess að í það minnsta er hæstv. ríkisstjórn komin með ákveðið samviskubit og við heyrðum það á hæstv. forsætisráðherra áðan að hún talaði um að ákveðnir hlutir væru komnir í gegn. Það skal þakka fyrir það, jafnlítið sem það nú er, og það er því miður rétt að sú undirritun sem var hér um daginn vegna viljayfirlýsingar í tengslum við Landspítalann var afskaplega miklar umbúðir, vonandi ekki í kringum lítið en þó er það nokkuð áhugavert að þar var einungis um að ræða viljayfirlýsingu lífeyrissjóðanna og hins opinbera varðandi byggingu spítalans. Nú gæti kannski einhver sagt að það hefði verið stórmál, einfaldlega vegna þess að þar voru fjármálaráðherra Vinstri grænna og heilbrigðisráðherra Vinstri grænna að skrifa undir viljayfirlýsingu um að fara í einkaframkvæmd en þeir hafa fram til þessa litið á það sem algera dauðasynd.

Nú er auðvitað einkaframtak ekkert annað en ákveðin tegund af lántöku og hefur sína kosti og galla. En við þær aðstæður sem nú eru er alveg ljóst að við munum ekki byggja þennan spítala, sem mun spara rekstrarkostnað verulega þegar fyrsti áfangi verður tekinn í notkun, og þess vegna er mjög mikilvægt að blása ekki á slíka aðferð til að koma hlutum í framkvæmd af einhverjum kredduástæðum þannig að í sjálfu sér var það að mörgu leyti stórmerkilegt að fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra Vinstri grænna skyldu skrifa undir þetta um daginn.

Stóra einstaka málið er hins vegar það að við munum ekki geta unnið okkur út úr þessum málum sem við erum í núna með sífelldum skattahækkunum og þess vegna komum við með aðrar hugmyndir. Eitt eru framkvæmdirnar, annað er kerfisbreyting á skattheimtu af lífeyrisgreiðslum. Það er einfaldlega alrangt að það sé eitthvað sem mun eyðileggja lífeyrissjóðakerfið en mér heyrist að það sé lína hjá ríkisstjórnarflokkunum að hamast á því og nota þau hugtök nógu oft og vonast til að menn fari að trúa slíku. En þetta er ekkert sérstaklega flókið, við tökum skatta af lífeyrisgreiðslum og spurningin er sú hvort við eigum að gera það þegar greitt er inn eða þegar er greitt út. Það er alveg rétt að ákveðin rök eru fyrir því að taka skatt þegar útgreiðslur verða og það má þá segja að þá virki þær sem laun og hjálpi til við að halda uppi því þjónustustigi sem viðkomandi kynslóð þarf á að halda og fær hún þá greidd laun úr sínum lífeyrissjóði. Það er alveg réttmætt sjónarmið. Hins vegar er af og frá að þetta eyðileggi kerfið, það er af og frá að það sé ekki framkvæmanlegt af því að það þurfi að loka viðkomandi sjóði og setja nýjan af stað. Slíkt er bara tæknilegt úrlausnarefni og það er algerlega ljóst að það að fara t.d. þá leið sem við veltum sérstaklega upp og skattleggja viðbótarlífeyrissparnað strax hefur ekkert með það að gera.

Sparnaður á Íslandi hefur þá sérstöðu miðað við önnur lönd að hann er nær eingöngu í gegnum lífeyrissjóði. Aðrar þjóðir eru með mun meiri frjálsan sparnað en mun minni lífeyrissparnað. Hugmyndin að viðbótarlífeyrissparnaði er einfaldlega sú að gefa fólki frelsi til að taka lífeyri fyrr. Hjá öðrum þjóðum er áratugahefð fyrir því að nota aðra sparnaðarleið til að ná nákvæmlega sama markmiði. Það að skattlagning inngreiðslna í viðbótarlífeyrissparnað eigi sér þau rök að við séum með því að taka lán til framtíðar varðandi fjármögnun á velferðarkerfinu á ekki við. Þetta er bara spurning um hvenær er best að taka sparnaðinn. Í mínum huga er algerlega einsýnt að það er mjög mikilvægt miðað við núverandi aðstæður að við hækkum ekki skatta nema að algeru lágmarki hjá fólki og fyrirtækjum og það segir sig sjálft að til lítils er að tala um einhverjar úrlausnir fyrir fólk í skuldavanda, húsnæðisvanda, ef menn ætla að bæta sköttum ofan á þetta sama fólk. Það er nákvæmlega ekki til neins. Það skiptir engu máli fyrir fólk hvort það er í miklum fjárhagsvanda vegna þess að það verður að greiða háa skatta eða háar afborganir af lánum eins og staðan er í dag. Það kemur í nákvæmlega sama stað niður, þó að svo sannarlega sé það rétt að útfærslur ríkisstjórnarinnar lækka greiðslubyrðina þá mun það allt hverfa ef menn hækka skattana, eins og er gert ráð fyrir eða maður hefur heyrt þær hugmyndir hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þá er það allt saman farið og gott betur. Það segir sig sjálft að þegar við vinnum okkur út úr þessu og þurfum að skapa störf þá gerum við það ekki með því að kyrkja atvinnulífið með sköttum. Þannig að öll rök hníga til þess að menn ýti annars vegar undir fjárfestingar og framkvæmdir og fari hins vegar í kerfisbreytingu varðandi skattlagningu lífeyrisgreiðslna og horfi þá sérstaklega til viðbótarlífeyrissparnaðar. Ég gat ekki heyrt annað en hæstv. forsætisráðherra — sem hefur ekki látið svo lítið að vera með í umræðu okkar um þessar tillögur, sem er ótrúlegt vegna þess að hæstv. forsætisráðherra og ráðherrar hafa kallað eftir hugmyndum frá stjórnarandstöðunni, en þegar þær hugmyndir koma fram eru þeir ekki tilbúnir til að ræða þær. Reyndar er það þannig að þær tillögur sem hér liggja fyrir eru betur útfærðar heldur en fjárlagafrumvarpið, sérstaklega þegar kemur að tekjuhlutanum.

Virðulegi forseti. Ég hvet alla til að kynna sér þessi mál, sérstaklega almenning og fjölmiðla vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að vekja stjórnarmeðlimi af þyrnirósarsvefni sínum og það er dýrt fyrir þjóðina.