138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt eru heildareignir lífeyrissjóða 1.700 milljarðar kr. Ef við förum þessa skattaleið varðandi viðbótarlífeyrissparnað færu 100 milljarðar strax inn, ef menn tækju strax þann skatt sem er inni, og síðan væru þetta annaðhvort 7 eða 13 milljarðar á ári sem menn fengju ef inngreiðslur verða jafnháar og núna. Menn sjá samhengið í því að tiltölulega lítið er af þeim þáttum.

Jafnvel þótt menn færu alla leið varðandi það að taka af þeim stabba sem er inni núna og taka út skattinn sem er til staðar, þá yrði það ekki gert þannig að lífeyrissjóðunum yrði sendur gíróseðill sem ætti að greiða á gjalddaga. Það gerist ekki þannig heldur snerist þetta fyrst og fremst um að þeir mundu væntanlega taka skuldabréf sem væru greidd á löngum tíma og kæmu til móts við að lækka skuldir ríkissjóðs. Þeirri aðferð yrði væntanlega beitt. Varðandi lífeyrissjóðina og forsvarsmenn þeirra, síðast þegar ég vissi — og ég þekki nokkuð vel til af því að ég var að vinna í lífeyrissjóði á sínum tíma — þá eru þeir ekki algerlega sama eintakið af homo sapiens allir saman og jafnmagnað og það nú er þá hafa þeir, eins og aðrir, misjafnar skoðanir. Þeir sem hafa hæst hafa hins vegar lýst sig mótfallna þessari hugmynd, í það minnsta margir en svo sannarlega eru líka til þeir aðilar sem eru í forsvari fyrir lífeyrissjóðina sem hafa verið mjög jákvæðir gagnvart þessu.

Við erum kosnir af þjóðinni til að fara með hennar mál. Hvernig við vinnum okkur út úr þessu er stóra málið. Ef menn hafa betri hugmyndir þá eiga þeir endilega að koma fram með þær. Það er algerlega ljóst að fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir er ekki betri hugmynd. Ég er ánægður með það að hv. þingmaður er tilbúinn til að skoða þetta með opnum hug og það er mjög mikilvægt að gera það. Ef menn hafa betri hugmyndir skulum við skoða þær og samþykkja þær. En þar er því miður ekki mikil samkeppni eins og staðan er í dag.