138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fyrirhugaðar skattahækkanir.

[13:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fantasíukenndu spurningu sem fór ansi víða og væri áhugavert að ræða hana í nánari smáatriðum, ýmsa þætti sem hv. þingmaður kom inn á. Á föstudaginn var kom fram í máli forsætisráðherra að fjármálaráðuneytið býst við því að komin sé upp ný staða vegna minni samdráttar, minna atvinnuleysis, lægra framlags ríkisins til nýju bankanna og minni vaxtagjalda. Reiknað er með að aðlögunarþörf ríkissjóðs minnki um eina 20 milljarða kr. á næsta ári og verði þar af leiðandi, hvað skattana varðar, 52 milljarðar kr. í stað 72 milljarða kr. Þetta eru jákvæðar fréttir og þær þýða að ríkið getur dregið verulega úr nauðsynlegum skattahækkunum sem þessu nemur og það skiptir svo sannarlega máli fyrir heimili og atvinnulíf. Við búum við þann ískalda raunveruleika að við ætlum að loka fjárlagagatinu hratt og því hefur þessi ríkisstjórn lýst oftar en einu sinni — og þá þarf því miður að grípa til skattahækkana. Við erum að reyna að gera það eins mildilega og hægt er með því að koma með skatta sem eru lágir víða í stað þess að íþyngja einstaka atvinnugreinum eða einstaka hópum og stéttum.

Það er verið að vinna þessar skattahugmyndir og enn er ekkert ákveðið. Eins og hv. þingmaður kom inn á var einhver leki í fjölmiðlum (Gripið fram í.) og ég veit ekki einu sinni hvort 20 aurar verði áfram á orkuna en það er ljóst að hækkanir á sköttum verða minni en til stóð. (Gripið fram í: Ert þú með í ráðum?) Hv. þingmaður vill vita hvort ég sé með í ráðum. Að sjálfsögðu er ég það, að sjálfsögðu.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þú vissir ekki …) Það er þannig, eins og fram kom, að menn hafa reynt að snúa út úr máli mínu. Þegar ég fjallaði um orkuskattinn á sínum tíma hafði ég ekki séð þessa einu setningu í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu þar sem stóð að það kæmi til greina að setja krónu á hverja kílóvattstund. Það var fantasían sem ég var að tala um vegna þess að það var aldrei inni í myndinni og hefði aldrei getað orðið veruleiki. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) Hv. þingmenn geta leikið sér að orðum, en ég held að þeir ættu frekar að einhenda sér í það að koma með okkur í þessa vinnu og taka til eftir sjálfa sig sem ekki veitir af. (Gripið fram í: Heyr, heyr, heyr.)