138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

kolefnisskattar.

[14:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ég fór síðast á bensínstöð þar sem bensínverðið var auglýst held ég að þar hafi komið fram að bensínlítrinn væri kominn í 192 eða 193 kr., ef ég man rétt, (Gripið fram í.) þannig að hann er að nálgast tvöhundruðkallinn. (Gripið fram í.)

Aðeins út frá því (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður talar um, um kolefnisgjöld og annað slíkt, minnist ég þess að í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mikið rætt um kolefnisgjöld og að breyta gjaldheimtu af umferð. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, má eiga það að hann lauk við að láta vinna þá skýrslu sem m.a. er í fjármálaráðuneytinu, þ.e. um upptöku kolefnisgjalda í staðinn fyrir hefðbundið bensíngjald, olíugjald, þungaskatt og allt það. Þessi vinna hófst því í fjármálaráðuneytinu í tíð Sjálfstæðisflokksins og átti að búa til heildstæða skattheimtu af umferð.

Hvað er verið að gera með það núna? Jú, í þeim skattapakka öllum sem við Íslendingar þurfum að setja fram er verið að skoða þessa blönduðu leið, hvernig menn ætla að gera, eins og hér var rætt um áðan, og ljóst er að sitt sýnist hverjum hvað það varðar. Hér virðist vera flokkur sem vill ganga í hið opinbera kerfi og skera allt niður til að stoppa í það gat sem þar er. (Gripið fram í.) Ég er ekki sammála því, við eigum að fara þessa blönduðu leið og þá, því miður, er rætt um, eins og í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, að fara í hækkun á bensíni og olíu og hækka álögur þar til að afla fjár til ríkissjóðs. Það er því ekki ný leið.

Ég hef sem samgönguráðherra frá 2007 verið í ríkisstjórnum sem hafa gert þetta, þar á meðal ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hún þurfti að fara í þessa vinnu. Það er engin skemmtun (Forseti hringir.) að búa til skatta og leggja á skattana en við þurfum að stoppa í (Forseti hringir.) þetta gat og það er verkefnið núna.