138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hrósa þingmanninum fyrir að reka ekki í vörðurnar þótt hann muni ekki orðið. „Það sem kemur frá sveitarfélögum og fer út í sjóinn“, mér finnst þetta ágætlega að orði komist.

Mig langar til þess að nefna eitt atriði af því að það er gríðarlega mikilvægt hvað þetta varðar og það er ábyrgð hvers og eins í losunarmálum. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að Íslendingar eiga 200.000 bíla – við eigum 200.000 bíla – sem þýðir að á næstu tveimur til fimm árum stöndum við frammi fyrir 200.000 nýjum ákvörðunum. Einstaklingar á Íslandi standa frammi fyrri 200.000 nýjum ákvörðunum, þ.e. hvað ætla ég að gera í staðinn fyrir að nota þennan bíl? Ætla ég að kaupa mér annan sem er minni og eyðir minna? Ætla ég að leggja honum og nota strætó? Ef bara þessi ákvörðun væri í þágu þeirra loftslagsmarkmiða að við förum niður um 35% værum við komin býsna áleiðis að því er varðar samgönguhlutann. Þarna vek ég athygli á því hvað ynnist ef okkur tækist að ná upp þessari stemningu í samfélaginu, ábyrgð hvers og eins á því hvernig hann velur að breyta úr þessum bíl í næsta kost getur skipt miklu máli. Þá er ég ekki að tala um róttækar ákvarðanir eins og að skipta úr bensínbíl yfir í rafbíl heldur einfaldlega að skipta yfir í bíl sem eyðir minna. Þarna eigum við gríðarleg sóknarfæri hvert og eitt fyrir sig og það skiptir máli að allir Íslendingar líti á það sem sóknarfæri að taka þátt í því að draga úr losun.