138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að fara mjúkum höndum um mig og minnast ekkert á skattatillögur m.a. Vinstri grænna. Ég hefði reyndar miklu frekar viljað ræða þær akkúrat hér og nú, (Gripið fram í.) ekki síst í ljósi þess að á síðustu árum var það einmitt Sjálfstæðisflokkurinn sem jók hér gífurlega skattbyrðar á þá sem eru með lægstu tekjurnar (Gripið fram í.) með því m.a. [Háreysti í þingsal.] að frysta persónuafsláttinn. [Háreysti í þingsal.] Og hvar var það annars staðar en á Íslandi sem tekjuójöfnuður jókst mest í Evrópu? (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það var á tíma Sjálfstæðisflokksins. [Háreysti í þingsal.]

Úr því að talað er um að það sé vinnuletjandi að hækka skatta má benda á að rannsóknir sýna að karlmenn halda áfram að vinna alveg sama hvaða skattprósenta er lögð á. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Er það ekki eitthvað persónubundið?)

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson beindi reyndar spurningu til mín um efni sem mér er jafnframt mjög kært, bankakerfið. (Gripið fram í.) Ég tek undir áhyggjur hans af því að fram fari ákveðnar afskriftir innan bankakerfisins án eftirlits og leiðbeininga frá framkvæmdarvaldinu. Við á Alþingi höfum reyndar sett lög þar sem við höfum sett ramma utan um afskriftirnar. Við samþykktum hér, allir flokkar, frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra um aðgerðir í þágu fyrirtækja og heimila. Þar koma fram mjög skýrar verklagsreglur um það hvernig eigi að afskrifa hjá fyrirtækjum og heimilum og í þessum lögum er jafnframt talað um að hæstv. ráðherra Gylfi Magnússon muni setja á fót eftirlitsnefnd sem eigi að kanna hvort fjármálafyrirtækin (Forseti hringir.) beiti samræmdum reglum og fari eftir lögum. (Gripið fram í.)

Til að svara spurningunni sem beint var til mín er ég tilbúin til þess að starfa áfram að því í viðskiptanefnd (Forseti hringir.) að fylgja eftir þeim lögum sem við höfum samþykkt og jafnframt að grípa til þeirra (Forseti hringir.) aðgerða sem með þarf.