138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir fyrirspurnina um Vetraríþróttamiðstöð. Samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis og Akureyrarbæjar um Vetraríþróttamiðstöð Íslands hófst formlega árið 1995 og það hefur reyndar gengið mjög vel allar götur síðan og starfsemin verið til fyrirmyndar. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands á aðild að samstarfinu auk ráðuneytisins og Akureyrarbæjar og frá árinu 1997 hafa ráðuneytið og Akureyrarbær fjármagnað þær framkvæmdir sem unnið hefur verið að í nafni miðstöðvarinnar auk þess sem reksturinn hefur verið fjármagnaður af sömu aðilum.

Mikil uppbygging hefur verið undanfarinn áratug og stjórn Vetraríþróttamiðstöðvarinnar verið í forsvari fyrir þeirri uppbyggingu og mótað þá framtíðarsýn sem unnið hefur verið eftir. Á árunum 1997–2008 hefur ríkissjóður veitt 230 millj. kr. í verkefnið og Akureyrarbær 577 millj. kr. þannig að báðir aðilar hafa staðið veglega að uppbyggingu á miðstöðinni og er það auðvitað hið besta mál í ljósi þess sem hv. þingmaður fór yfir um mikla notkun á miðstöðinni og mikla iðkun vetraríþrótta, ekki síst á Akureyri.

Samningur aðila um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvarinnar rann út í árslok 2008 og þá um haustið var skipaður vinnuhópur þar sem sátu starfsmenn ráðuneytis og Akureyrarbæjar. Þeim hópi var falið að meta forsendur þess hvort ætti að endurnýja samning við Akureyrarbæ um stofnkostnað vegna uppbyggingar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands. Í mati hópsins kom fram að forsendur væru fyrir að endurnýja samninginn um uppbyggingu mannvirkja á svæðinu en skoða þyrfti sérstaklega hvaða verkefni ættu að liggja til grundvallar endurnýjun hans. Drög að þessum samningi liggja fyrir. Þar er lagt til að ríkissjóður og Akureyrarbær greiði hvor um sig 200 millj. á tímabilinu 2009–2013 og enn fremur er gert ráð fyrir því að samningur um reksturinn verði endurnýjaður.

Í kjölfar efnahagshrunsins var málið hins vegar lagt til hliðar og það var ekki veitt framlag til uppbyggingar í fjárlögum 2009 eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Framlag til rekstrar á þeim sömu fjárlögum var 3,8 millj. þó að samningur um rekstur hafi ekki verið endurnýjaður heldur var þessum lið haldið inni.

Markmið ráðuneytisins er að halda þessu samstarfi áfram og gert er ráð fyrir 3,2 millj. kr. framlagi til rekstrar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í fjárlagafrumvarpinu 2010, sem er sami niðurskurður og er almennt settur á íþrótta- og menningarmál. Hvað uppbyggingu mannvirkja varðar er lagt til að beðið verði með að fjármagna framkvæmdir þangað til mesta efnahagslægðin er liðin hjá. Við vonumst til að hægt verði að endurmeta stöðu mála næsta haust fyrir næstu fjárlög, gera áætlun um framtíðaruppbyggingu og eflingu miðstöðvarinnar í samræmi við þær hugmyndir sem þegar liggja fyrir um Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri í samstarfi við Akureyrarbæ en því miður er þetta staðan.

Ég ætla ekki að fara út í samanburð milli íþróttagreina enda skilar það kannski ekki miklu þegar horft er til þess að auðvitað er það fjárlaganefndar endanlega að fara yfir þær tillögur sem fyrir liggja. Við teljum að uppbygging sé a.m.k. ekki í farveginum á svona tímum og því hefur þetta verið lagt til hliðar en við vonum svo sannarlega að hægt verði að taka þann þráð upp að nýju fyrir næstu fjárlög.