138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni og hæstv. ráðherra sömuleiðis. Það er auðvelt að fullyrða í þessum efnum og ef til vill alhæfa en ef ég leyfi mér slíkt get ég sagt að jafnstórt orð og Vetraríþróttamiðstöð Íslands — ef hún væri á suðvestursvæðinu, fengi hún meira en 3,2 millj. kr. á fjárlögum. Það er nokkurn veginn staðreynd í mínum huga og ég get mér þess til að svo væri. Það virðist einhvern veginn vera svo að eftir því sem afþreying og menningarstarfsemi fjarlægist Reykjavíkursvæðið fái hún tiltölulega minna — jafnvel ekki einu sinni hlutfallslega minna heldur bara tiltölulega minna. (Gripið fram í.)

Á hitt ber að líta, og ég tek undir það með frammíkallara, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að á undanförnum árum hafa verið gerðir mjög metnaðarfullir menningarsamningar við landsbyggðina. Margt er hægt að tína þar til og gildir einu hvaðan þær ágætu hugmyndir koma, hvort það er frá fyrrverandi eða núverandi menntamálaráðherrum. Í því ljósi vil ég einmitt hvetja hæstv. menntamálaráðherra til dáða í þessum efnum. Það er afskaplega brýnt að spyrna við fótum í byggðamálum og ferðaþjónustumálum, einmitt í þeim efnum að koma upp glæsilegri aðstöðu á þeim stöðum þar sem hún á best heima — og þetta er gott dæmi um það — til að skapa jafnvægi í byggð á Íslandi og skapa innra flæði í ferða- og menningarþjónustu á þessu landi. En ég skil hins vegar nákvæmlega þá stöðu sem hæstv. ráðherra er í, hann er í mjög erfiðri stöðu þegar kemur að fjárútlátum til menningar- og afþreyingarmála og íþróttamála eins og þetta dæmi snýst um. Betur má ef duga skal og mér finnst þetta að mörgu leyti lýsandi fyrir kjör landsbyggðarinnar þegar kemur að menningar- og afþreyingarmálum.