138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð annarra þingmanna um að það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um ferðasjóð íþróttafélaganna. Þetta var baráttumál sem við framsóknarmenn börðumst fyrir í mörg, mörg ár. Það var sérstaklega mikil áhersla lögð á þetta í því bæjarfélagi sem ég kem frá, Vestmannaeyjum, því að það er alveg geysilegur ferðakostnaður hjá íþróttafélögum þar, það er mikil virkni í íþróttastarfi í Eyjum og þetta skiptir því mjög miklu máli. Menn lögðu mikið á sig við að styðja þá þingmenn sem lögðu þessa þingsályktunartillögu fram í upphafi að hún færi í gegn. Ég hef heyrt það síðan tillagan var samþykkt að mjög mikil ánægja er með þetta. Ég held að hver sem hefur farið reglulega t.d. með Herjólfi hafi séð hvers konar kostnaður þetta er fyrir íþróttafélög sem búa við erfiðar samgöngur og þurfa að fara langt til að geta tekið þátt í keppni uppi á landi og af landsbyggðinni. Ég hvet til þess að þetta sé eitt af því sem við stöndum vörð um til að jafna (Forseti hringir.) stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu.