138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þá góðu umræðu sem orðið hefur um þetta þjóðþrifamál á liðnum mínútum. Það má heyra á umræðunni að það er afskaplega mikil og góð þverpólitísk samstaða um þennan sjóð og þó að nú væri. Hér er komið inn á ekki einasta gríðarlegt hagsmunamál fyrir hinar dreifðu byggðir og landið allt að mínu viti, heldur er hér einfaldlega komið inn á jafnbrýnt mál og jafna stöðu fólks, jafna stöðu ungmenna og barna til að taka þátt í einni bestu og mestu forvörn allra tíma, sem eru íþróttir. Það vita allir sem hér eru inni og út um land allt að kostnaður barna í litlu bæjarfélagi þar sem eitt íþróttafélag er til staðar, er gríðarlegur og íþyngjandi fyrir venjulegar fjölskyldur þegar kemur að því að keppa við næsta lið sem kann að vera í 50, 100 ef ekki 200 km fjarlægð og gott betur.

Þetta mál snýst líka um það að við stöndum vörð um grunngildin í samfélaginu þegar kemur að þeim erfiðleikum sem blasa við okkur nú um stundir, að við stöndum vörð um grunngildin þegar kemur að þjónustu við börn. Eða viljum við skera hana niður? Viljum við skera hana niður við trog? Ég segi nei. Við getum ekki skorið niður jöfnun tækifæra í landinu þó svo að við þurfum að skera niður margt. Þess vegna vil ég fagna og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir einmitt að standa vörð, að skera ekki niður þennan málaflokk meira en hún gat um og standa þannig að mínu viti góðan vörð um sjóðinn. (Forseti hringir.) Við skulum jafnframt hlusta á þá þverpólitísku samstöðu sem (Forseti hringir.) hefur heyrst hér í þingsal í dag um að efla þennan sjóð (Forseti hringir.) enn frekar, börnum landsins til heilla.