138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

útganga fulltrúa Íslands á allsherjarþingi Sþ.

131. mál
[18:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að gera þá játningu gagnvart hv. þingmanni að það hvarflaði að mér. Ég ræddi þetta mál, fyrir ræðu forseta Írans, í hópi nokkurra kollega minna af Norðurlöndum og frá Eystrasaltsríkjunum. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að gefa nein slík fyrirmæli fyrir fram um það. Auðvitað er hægt að hugsa sér atvik sem eru einfaldlega þess eðlis að menn ættu að tjá og túlka andstöðu sína við þau með einhverjum hætti, eins og t.d. með því að ganga út. Það hafa menn ekki gert. Ísland hefur aldrei gert það. Engin hefð er fyrir því á Íslandi. Fyrirspurnin sem hv. þingmaður beinir til mín er sú hvort hugsanlegt sé að slíkt geti einhvern tímann gerst. Helst mundi ég telja að það gæti gerst við þær aðstæður að mjög gróflega væri vegið að okkur sjálfum. Það er svona það sem kemur upp í hugann.

Ég tek það skýrt fram að ég deili algjörlega þeim viðhorfum sem komu fram hjá kanslara Þýskalands og fjölmörgum öðrum gagnvart Íransforseta og því sem hann hefur sagt. Þetta hefur komið upp áður. Ég minni t.d. á ráðstefnuna sem haldin var í apríl í Durban, um afnám kynþáttamisréttis, þar sem fjöldi ríkja gekk út. Ísland gekk ekki út þá og var þar í hópi Sviss og Noregs sem ekki gerðu það. Rétt á eftir forseta Írans í það skipti talaði Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, og notaði ræðu sína til þess að mótmæla harkalega því sem kom fram hjá forseta Írans. Í New York á dögunum fannst mér það nokkuð skýrt að Íranar voru að kalla eftir aðgerðum af þessu tagi til þess að vinna forseta, sem á þeim tíma var í erfiðleikum á heimavelli, ákveðið fylgi. Þetta var viss aðgerð sem hann vildi reyna að kalla fram, taldi ég, til þess að spila á heimamarkaðinn. Eins og hv. þingmaður man þá voru róstur og úfar höfðu risið í Íran millum andstæðra fylkinga.

Svar mitt er á þann veg að ekki sé hægt að útiloka að slíkar aðstæður komi upp að þjóð eins og Ísland mundi grípa til slíkra ráðstafana. En það hefur ekki gerst, ekki er hefð fyrir því og ég tel að fyrir fram, áður en menn eru búnir að hlýða á þá ræðu sem slíkt tjáning mundi beinast gegn — að það sé hægt að gera slíkt, menn verða að meta það á staðnum. Ég vil hins vegar segja að allir hafa frelsi til skoðana og menn eiga að hafa rétt til þess að setja skoðanir sínar fram. Mannfundir af þessu tagi gefa þeim sem eru staddir á þeim líka tækifæri til að slá til baka gegn þeim mótmælanlegu skoðunum sem kunna að koma fram. Það verðum við líka að hafa í huga.

Þetta er svar mitt. Ég get ekki gefið neitt „kategorískara“ svar en þetta. Við höfum ekki gert það, ekki er hefð fyrir því, ég hef ekki gefið fyrirmæli um það — og það þarf að vera verulega sterkt tilefni til þess að utanríkisráðherra gæti gefið slík fyrirmæli.