138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og fyrirspurnina frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, ég dreg ekki í efa hans þekkingu á þessum málaflokki, og einnig vil ég þakka svör hæstv. félagsmálaráðherra.

Þegar flokksfélagar og samstarfsmenn mínir í ríkisstjórn ræða um þennan málaflokk sem vissulega er verið að skera niður eins og svo margt annað í fjárlaganefnd núna, sem er mjög sársaukafullt og tengist félagslegri aðstoð og fleiru, langar mig að spyrja þá hvort ekki hafi hvarflað að þeim að hugsanlega væri skynsamlegt að draga úr hraða Evrópusambandsumsóknarinnar — þar er einn milljarður í það minnsta – og hvort ekki sé eðlilegra að eyða því fé í brýn og góð verkefni eins og verið er að tala um hér.