138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að við verðum að átta okkur á því að þær upplýsingar og þau bréfaskrif sem hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir hér í ræðu sinni eru ekkert annað en neyðarkall frá dómskerfinu í landinu. Við vitum að dómarar eru að jafnaði hæglátir og hógværir þegar kemur að því að gera kröfur fyrir sig, a.m.k. opinberlega, en þegar dómarar í Hæstarétti og héraðsdómstólunum og reyndar lögmenn líka gera athugasemdir af því tagi sem koma fram í þeim bréfum sem dómsmálaráðherra hefur greint frá er ekkert um annað að ræða en neyðarkall. Við því er nauðsynlegt að bregðast.

Ég ætla ekkert að fara yfir, eins og aðrir þingmenn hafa gert hérna, þær aðstæður sem við búum við, mikla fjölgun mála og mikla fjölgun þungra og erfiðra mála sem munu lenda hjá dómstólunum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er þess vegna að mæta fjárhagsþörf dómstólanna og láta hana passa inn í það fjárlagaumhverfi sem við stöndum frammi fyrir, sem hv. þm. Atli Gíslason lýsti hér áðan, nauðsyn á niðurskurði víða.

Ég tek undir það sem hv. formaður allsherjarnefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sagði áðan, að það hafi verið mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera sambærilega hagræðingarkröfu til dómstóla, lögreglu og fangelsismála og gerð er almennt til stjórnsýslustofnana. Það má reyndar geta þess að aðalskrifstofur ráðuneytanna eru ekki skornar niður með sama hætti. Fljótleg athugun á fjárlagafrumvarpinu leiðir í ljós að aðalskrifstofur ráðuneytanna skera niður um 1,9% (Forseti hringir.) á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið. Dómsmálaráðuneytið er undanskilið, það er það eina sem heldur sig við 10% mörkin en mörg ráðuneyti (Forseti hringir.) auka útgjöld vegna aðalskrifstofa sinna og ætla á sama tíma að skera niður (Forseti hringir.) lögreglu, fangelsi og dómstóla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)