138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðu hans. Ég er honum efnislega mjög sammála hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur og margt af því sem hann benti á að betur mætti fara í frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram af hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni er varðar til að mynda það að ákveðinn hluti Alþingis og ákveðinn hluti kosningabærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil líka segja, af því að ég tók til máls í morgun varðandi Lýðræðisstofu, að ég er alls ekki mótfallinn henni sem slíkri og þykir leitt ef hv. þingmaður hefur mistúlkað orð mín hvað það snertir. Ég hef ákveðnar efasemdir um það mál og vil skoða það í allsherjarnefnd og eins og ég sagði hv. þingmanni vil ég leita allra leiða til að sameina þessi tvö frumvörp þannig að hægt sé að ná út einu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Persónulega finnst mér vanta aðalatriðið inn í þau frumvörp sem nú eru til umræðu og er inni í frumvarpi því sem hv. þingmaður mælti fyrir ásamt Hreyfingunni sem snýst um það að ákveðinn hluti kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem hún er ráðgefandi eða bindandi.