138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Hv. þingmaður hefur þó reifað sjónarmið sín varðandi það eða greint frá því sem hún hefur heyrt að gætu verið ástæður þess að það er minni leigukvóti á markaði en oft áður. En stóra ástæðan er auðvitað sú sem blasir við öllum mönnum og það er að búið er að draga mjög mikið úr aflaheimildum. Ýsuheimildirnar t.d. drógust saman, ef ég man rétt, um 30.000 tonn núna á milli fiskveiðiára og það er m.a. þess vegna sem það er svo mikilvægt fyrir okkur að hægt sé að geyma kvóta á milli ára, vegna þess að þá nýtist sá kvóti sem ekki var veiddur á síðasta fiskveiðiári, þegar við höfðum miklar og rúmar ýsuheimildir, betur á þessu ári og ætti þá m.a. að jafna þetta leiguframboð og auðvitað fyrst og fremst að gera mönnum kleift að búa sér til verðmæti með því að vinna meira af ýsunni á þessu ári.

Það er hins vegar stóra spurningin sem þetta frumvarp reynir að svara líka og er þar með að grípa freklega fram fyrir hendurnar á endurskoðunarnefndinni, að frumvarpið segir í öðru orðinu: við skulum auka leigukvótann, en í hinu: við erum á móti því að leiguviðskipti eigi sér stað. (Forseti hringir.) Það er þetta sérkennilega ástand á þessu frumvarpi að það horfir til tveggja átta og svarar spurningunum á mismunandi vegu.