138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hyggst í síðari ræðu minni í þessari umræðu gera aðeins að umtalsefni ítarlegar en ég náði að gera í fyrstu ræðu minni, þá ákvörðun sem hér er lagt til að verði tekin er snýr að útgáfu veiðiheimilda í skötusel. Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða mikilvæga og meiri háttar stefnubreytingu í því fiskvinnslukerfi sem við búum við og höfum búið við síðasta áratuginn. Breytingin felst í því að hingað til hafa menn getað gengið að því sem vísu að ef aflaheimildir þeirra eru skertar muni þeir þegar tækifæri er til eða ef hæstv. sjávarútvegsráðherra ákveður að svo verði gert, þá fái þeir notið þeirrar aukningar sem ákveðin er. Það er þess vegna samhengi á milli þess að vera skorinn niður og fá síðan aukningu þegar á því er möguleiki.

Með því að við samþykkjum þessa aðferð hefur verið brotið blað í sögu fiskvinnslukerfisins á Íslandi. Nú kann að vera að mörgum finnist það hið besta mál en það er ekki hægt að nálgast það á þeim forsendum að hér sé um eitthvert smámál að ræða sem ekki hafi neinar afleiðingar. Þessi regla mun gera það að verkum að óvissa mun aukast mjög í íslenskum sjávarútvegi því það getur enginn sagt annað en að það er komið ákveðið fordæmi fyrir því að fara þessa leið. Menn vita því ekki nema næst þegar skorið verður niður hjá þeim í aflaheimildum hvort þeir fái notið hækkunar sem verður, hvort sem um er að ræða þorsk, ýsu eða aðrar tegundir. Sérstaklega þykir mér rökstuðningurinn vera léttvægur í greinargerðinni þar sem lagt er upp með að það séu meginrök að útbreiðsla skötusels hafi breyst frá því sem áður var. Þetta á því miður við um margar aðrar tegundir. Sé þetta grundvöllur fyrir þessari mikilvægu ákvörðun tel ég að þar með hafi verið skapað fordæmi og þá um leið mikil óvissa í greininni og er ekki á bætandi hvað varðar ákvörðun ríkisstjórnarinnar og rekstrarumhverfi þessarar atvinnugreinar.

Annað vil ég ræða við hæstv. ráðherra og vil gjarnan fá svör við. Í frumvarpinu er lagt upp með það í ákvæði til bráðabirgða sem snýr að skötuselnum að fast verð er sett á aflaheimildir, 120 kr. hvert kg. Nú liggur það fyrir að á fyrstu mánuðum þessa fiskveiðiárs má ætla að nú þegar sé búið að veiða ein 68% af þeim skötusel sem til ráðstöfunar er og því er spurning mín, frú forseti, sem ég beini til hæstv. sjávarútvegsráðherra þessi: Hvernig verður farið með af hálfu ráðuneytisins og framkvæmdarvaldsins ef eftirspurnin eftir veiðileyfum á skötusel verður meiri en nemur þeim tonnum sem um er að ræða, þ.e. ef mikill fjöldi sækist eftir þessu, þ.e. 120 kg, verður þá tekinn allur fjöldinn sem sækir um og kílóunum deilt á viðkomandi eða hvaða reiknireglur sjá menn fyrir sér í þessu? Sjá menn fyrir sér að sá sem fyrstur sækir um fái og þeir sem koma of seint fái þá ekki neitt eða hvernig hefur ráðuneytið séð fyrir sér fyrirkomulag þessara mála? Þetta skiptir heilmiklu máli vegna þess að menn munu strax fara að vinna eftir þeim reglum sem hér hafa verið settar. Ég sé ekki alveg útfærslu á þessu í greinargerðinni né heldur í reglunni sjálfri, þ.e. lagagreininni sjálfri þannig að það væri ágætt ef einhver leiðsögn kæmi fram frá hæstv. ráðherra, einhver hugmynd um hvernig þetta verður gert því þetta mun skipta töluvert miklu máli þegar kemur að því að framkvæma þetta frumvarp, ef að lögum verður.