138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vék aðeins að því í ræðu minni áðan hvernig gert er ráð fyrir að í þetta verði farið, í fyrsta lagi sett á tíma, það verður boðið ákveðið magn á einum eða tveimur mánuðum og síðan áfram. Ég bendi á að það þarf fjárfestingar til að búa sig undir að fara í svona veiðar þannig að þó að hv. þingmaður búist við að allir bátar landsins sæki um skötuselsheimildir þarf að borga þær. Maður getur ekki sótt um aftur fyrr en megnið af því hefur verið veitt. Þá verður bara að sjá til hvernig þessu reiðir af.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er nú þegar búið að veiða tæplega 70% af aflaheimildunum sem sýnir kannski líka hina miklu og öru útbreiðslu á þessum fiski. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að rannsóknir á skötuselnum verði auknar. Á hvaða vegferð er hann í íslensku lífríki? Það eru ekki aðeins veiðarnar sem eru rannsakaðar, heldur þurfum við líka að sjá hvaða stöðu hann er að taka í íslensku lífríki vítt og breitt við landið þannig að ég tel að þetta sé tvíþætt markmið sem áhersla er lögð á.