138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni fátt sem kemur á óvart við þessa umræðu hér, hún fer í hefðbundin hjólför öfugt við það sem við þingmenn lögðum okkur fram um að gera í allt sumar, að reyna að lágmarka þann skaða sem íslensk þjóð yrði fyrir, sem í stefndi af því frumvarpi sem lagt var fram hér á hinu háa Alþingi 5. júní sl. Ég tel að sú orðræða sem hér hefur farið fram muni ekki gagnast okkur neitt sérstaklega vel við að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð af því frumvarpi sem nú liggur fyrir til afgreiðslu. Þess vegna urðu mér það gríðarleg vonbrigði þegar málið var tekið út með því offorsi sem um getur og var rætt hér í gær. Ég taldi og treysti, einfaldlega vegna þess að við höfðum gefið okkur tíma til að fá umsagnir til að fara í gegnum þetta, að við mundum rýna þær breytingar sem gerðar höfðu verið á þeim lögum sem Alþingi setti í ágúst sl. Það færi betur á því að við héldum umræðunni á þeim nótum.

Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna það hér, af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði þá kenningu uppi að ásjóna sjálfstæðismanna væri öðrum fremur mjög slétt og felld af því einfalda verklagi sem hann sagði að væri tíðkað í þeim flokki, að menn væru straujaðir þar með heitu straujárni, held ég að ég hafi tekið rétt eftir. Sumir eru að vísu skorpnari en aðrir, það kann vel að vera, en menn upplifa það með ýmsum hætti. Ég skal alveg viðurkenna að í tveimur stærstu málum sem íslensk þjóð hefur þurft að horfast í augu við núna undanfarið, í ESB-málinu og síðan í Icesave-málinu, minnir framganga þingflokks Vinstri grænna miklu fremur á textann um fatlafólið þar sem það ók loks í veg fyrir valtara og varð að klessu, ojbara.

Ég sé ekki betur en að í þessum tveimur meginmálum hafi VG algjörlega látið valta yfir sig af þingflokki Samfylkingarinnar.