138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé misskilningur hjá hv. þingmanni að það séu nokkrar minnstu líkur á því eða hætta á að ríkið verði af tekjum eða taki á sig óþörf útgjöld vegna þessa frumvarps því að það er ekki þannig að kjararáð geti ekki fellt úrskurði til lækkunar. Það er áfram heimilt, þetta setur engar skorður við því að kjararáð geti ekki hækkað þá úrskurði sem það hefur þegar fellt á þessu ári til að mæta vilja Alþingis um að lækka laun æðstu embættismanna. Og það skal taka mið af þeim úrskurðum þegar kemur að úrskurðum varðandi nýja aðila sem undir ráðið kunna að falla. En það getur hvenær sem er, ef launaþróun gæfi tilefni til slíks hjá viðmiðunarhópum, lækkað úrskurði sína. Það er því ekki hætta á því og vonandi gleður það hv. þingmann og kannski er þá ekki tilefni fyrir hana til að vera að alveg jafnneikvæð út í þetta stórskaðlega mál, sem virðist vera að dómi hv. þingmanns, að það skuli flutt hér.

Ég taldi nú ekki hvort hv. þingmaður notaði orðið „lýðskrum“ átta sinnum eða tíu sinnum í ræðu sinni, það var eitthvað nálægt því. Þá leyfi ég mér að spyrja hvaða orð hv. þingmaður notar þegar hún stendur frammi fyrir alvörulýðskrumi, sem ég tel þetta nú ekki vera? Mér finnast þetta ótrúleg ummæli um sárasaklaust og einfalt frumvarp. Ég hef rökstutt hvers vegna við teljum rétt að leggja það fram, til að það sé hafið yfir vafa hvernig frá þessum málum er gengið á næsta ári.

Varðandi það hvernig það muni ganga að taka mið af því að almennt sé ekki gert ráð fyrir hærri launum hjá hinu opinbera hjá þeim starfsmönnum þess sem þannig er samið um við hvað varðar föst launakjör en laun forsætisráðherra þá vinnur kjararáð einfaldlega á þeim grunni. Að sjálfsögðu er það viðmiðun sem þar er sett í loftið og hún er einfaldlega sett í loftið til þess að senda skýr skilaboð um að tími ofurlaunanna er liðinn. Það er ekki þannig (Forseti hringir.) launastrúktúr í landinu sem við viljum sjá.