138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú vill þannig til að hv. þingmaður er lögfræðingur og eflaust miklu fróðari en sá sem hér stendur um kjaramál þeirra sem þá menntun hafa og áhugasamari um framgang þeirra í kjaramálum. (VigH: Ég er ekki dómari.) Ég held að það væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim sjónarmiðum sem þingmaðurinn hv. hreyfir ef hér væru löggjafarvaldið eða framkvæmdarvaldið að mismuna dómsvaldinu í kjörum, lækka þá sérstaklega í refsingarskyni eða með öðrum hætti að vega að sjálfstæðinu. Hér er einfaldlega verið að framlengja að eitt skuli yfir alla ganga og ég tel ekki að í því felist nein aðför að sjálfstæði dómstóla í landinu.