138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

staða minni hluthafa.

24. mál
[21:22]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir þessar góðu viðtökur sem sannarlega hafa verið uppörvandi fyrir umræðuna og þá vinnu sem við hv. þingmenn, flutningsmenn málsins, höfum lagt í það.

Hv. 6. þm. Reykv. s., Lilja Mósesdóttir, spurði mig hvort ég teldi ástæðu til að halda þessu máli áfram á vettvangi hv. viðskiptanefndar í ljósi þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði lagt fram skýrslu eða öllu heldur látið vinna skýrslu. Hvort þetta hefði verið flutt vegna þess að við værum á einhvern hátt óánægðir með þá vinnu sem hæstv. ráðherra hefði látið vinna eða verið ókunnugt um það starf sem unnið var í ráðuneytinu.

Það skal viðurkennt að a.m.k. ég sem 1. flutningsmaður málsins hafði ekki vitneskju um þetta starf og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það hafi verið unnið af góðum og heilum hug. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið áhugamaður um svipuð mál, hann leiddi nefnd þá sem hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði að umtalsefni áðan og kom fram með ýmsar mjög áhugaverðar tillögur sem ég tel að hafi verið til bóta og rötuðu sumar þeirra á sínum tíma inn í lagafrumvarp og urðu að lögum en aðrar ekki. Ég hygg að það sé kannski það tregðulögmál sem ég var að vísa til að menn hafa haft skilning á málinu í meginatriðum en hins vegar hafa ýmis atriði úr þeim hugmyndum sem hér hafa verið lagðar fram ekki ratað inn í löggjöfina. Síðan mega menn ekki gleyma því að viðskiptalífið og aðstæður breytast. Reynslan kennir okkur kannski hluti sem við vissum ekki áður og þess vegna fannst mér sérstakt tilefni nú að flytja þessa tillögu vegna þess að við hljótum að þurfa að endurskoða þessi mál í ljósi fenginnar biturrar reynslu og ýmislegt hefur komið á daginn varðandi stöðu minni hluthafa sem satt að segja engan óraði fyrir áður en hrunið varð.

Ég vil gefa mér tíma til að fara yfir og skoða þá skýrslu sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lét vinna og sjá hvaða hugmyndir hún hefur að geyma. En stóra málið og kannski meginhugsunin á bak við þingsályktunartillöguna var að ég og flutningsmenn töldum mikilvægt að skoða þessi mál í heildstæðu samhengi við það sem hefur gerst og við gerðum okkur líka grein fyrir því að þetta lagaumhverfi væri orðið býsna flókið og þess vegna þyrfti hóp sérfróðra manna til að fara yfir þetta til að átta sig á þessum hlutum öllum saman þannig að við værum ekki bara að stagbæta flíkina heldur reyna að komast að því hvort við þyrftum ekki að gera heildstæðari úttekt á þessu máli öllu og vinna það síðan með heildstæðum hætti í lagafrumvarpi sem tæki á þeim málum sem hér um ræðir.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi sérstaklega atriði sem ég held að sé mjög áhugavert og það er staða hluthafa í minni félögum. Við erum m.a. að horfa til þess að sú endurreisn, sem við þurfum að sjá í efnahagslífi okkar, verði ekki síst borin uppi af minni félögum og við sjáum að með hinu lága gengi opnast möguleikar á nýrri atvinnustarfsemi sem ekki var til staðar þegar gengið var sterkara. Þó að við vitum auðvitað að þetta lága gengi hafi sínar skuggahliðar, þá opnar það engu að síður ný tækifæri og margir eru að hyggja að þessum málum og þess vegna er þetta einmitt svo mikilvægt, vegna þess að í slíkum félögum er veltuhraði hlutafjár mjög lítill. Það er kannski ekki alltaf svo auðvelt í rauninni að meta verðmæti félaganna og verðmæti hlutafjárins. Hingað til hafa menn verið dálítið bundnir við það að sá sem sæti í stjórn væri aðilinn sem menn gætu treyst á að gætti hagsmuna félagsins og hagsmuna hluthafanna og þess vegna ætti stjórnin einfaldlega að leggja mat á verðmæti hlutafjárins og að það væri nægileg trygging fyrir hluthafana. Nú vitum við betur. Við vitum að þetta hefur ekki dugað og ég vil vekja athygli á því að í öðru frumvarpi sem við fluttum var einmitt gert ráð fyrir því að tryggja betur rétt þeirra sem þarna um ræðir þegar velta með hlutabréf er mjög lítil. Þá var lagt til að þegar veltuhraði bréfa í félagi, sem er skilgreindur í 1. gr. frumvarpsins, er takmarkaður eigi að fela það dómkvöddum matsmönnum að ákvarða hvaða verð er boðið í yfirtökutilboði að teknu tilliti m.a. til tiltekinna grunnþátta sem er mælt fyrir um í lögunum. Með þessu var reynt að nálgast það að reyna að búa til sanngjarnt verð á hlutafénu til að tryggja að ekki væri um óeðlilega verðmyndun að ræða þar sem menn gætu í krafti meiri hluta síns níðst á þeim sem minna vægi hefðu innan hlutafélaganna.

Ég ætla líka að vekja athygli á hinu frumvarpinu sem er fylgiskjal III með þessari þingsályktunartillögu og mér sýnist að það hefði örugglega haft áhrif ef slíkt ákvæði væri til staðar. Í frumvarpinu er lagt til að á eftir 104. gr. gildandi laga um hlutafélög bætist við ný grein sem orðast svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Hlutafélagi er óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða félögum sem þessir aðilar eiga ráðandi hlut í nema áður hafi verið aflað sérfræðiskýrslu. Sama gildir um kaup félags á eignum af móðurfélagi þess og þeim sem tengdir eru aðilum skv. 1. málsl. á þann hátt sem lýst er í 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. Um gerð og efni skýrslunnar gilda ákvæði 6. og 7. gr., eftir því sem við á.“

Við þekkjum mörg dæmi sem hafa verið gerð opinber í kjölfar hrunsins, ýmis mál sem hafa kannski legið í þagnargildi og ekki verið mönnum ljós hafa verið að koma upp á yfirborðið og þar höfum við séð það gerast að hlutafélag hafi keypt eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins á mjög óeðlilegu verði. Við höfum einmitt séð slík dæmi koma upp í hrönnum sem hefðu ekki þurft að koma upp ef lögin hefðu verið skýrari. Þannig sjáum við að fullt tilefni var til að herða á þessum málum. Sú nefnd sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi og sat í gerði ýmsar og margar góðar tillögur um breytingar, sumar þeirra urðu að lögum en aðrar eru að koma fram í þinginu þetta mörgum árum síðar að frumkvæði hæstv. ráðherra sem var formaður þeirrar nefndar þannig að við sjáum hvernig þetta vinnst stundum hægt og menn þurfa kannski að reka sig harkalega á til að bregðast við.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessar góðu og jákvæðu umræður. Ég held að þær endurspegli mikinn vilja þingsins til að taka á þessu mikla og vandasama máli. Þó að hæstv. ráðherra hafi látið vinna þessa skýrslu þá vil ég ekki gefa mér fyrir fram að ekki sé tilefni til að samþykkja þetta mál engu að síður sem áréttingu á vilja þingsins og vilja til að skoða þessi mál með mjög heildstæðum hætti. Ég hygg mjög mikilvægt að það sé gert, líka vegna þess að þessi mál hafa verið að þróast í áranna rás og það væri örugglega ekki skaði að því að þessi mál yrðu skoðuð heildstætt í samhengi við það sem verið er að gera erlendis. Gleymum því ekki að þau vandamál sem við erum að glíma við eru að þessu leytinu, eins og svo mörgu öðru, vandamál sem við þekkjum frá öðrum löndum. Ég fylgist til að mynda talsvert vel með umræðunni um skylda hluti í Bretlandi og margt af því sem þar er fjallað um er ótrúlega líkt því sem við höfum fjallað um hér og það er ýmislegt sem við erum að velta fyrir okkur sem menn eru líka að velta fyrir sér í því stóra landi.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, tel ég að þessi umræða undirstriki fyrst og fremst mikinn vilja til að taka á þessu máli og fagna því frumkvæði sem hæstv. ráðherra hefur þegar sýnt.