138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið. Ég ætla að koma örstutt inn á sama mál og fyrri ræðumenn hafa komið inn á, þ.e. 3. liðinn í þessari fyrirspurn. Ef ég hef skilið ráðherra rétt liggja ekki fyrir í ráðuneytinu þær upplýsingar sem er óskað eftir. Ég vil þá nota tækifærið og hvetja ráðherrann til að kynna sér þá skýrslu sem Deloitte-ráðgjafarfyrirtækið vann um þessi áhrif. Ef ekki, að láta þá gera þessa úttekt sjálfur. Það er mjög mikilvægt að þetta sé skoðað í samhengi hlutanna því að eins og fram kom hjá hv. ræðumanni Ásbirni Óttarssyni er veruleg hætta á að bankakerfið fari á hliðina aftur ef þetta verður gert með þeim hætti sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Það kann að vera að menn hafi einhverjar aðrar hugmyndir um útfærslu, en það sem liggur fyrir er að ljóst er að hugmyndin getur velt þessari stóru atvinnugrein og bönkunum um leið.