138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það má ekki undir neinum kringumstæðum líta þannig á. Það var ítrekað í umræðum, m.a. af hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að þeir fyrirvarar sem verið var að setja rúmuðust innan þeirra samninga sem gerðir höfðu verið. Að teknu tilliti til þess og síðan þeirra skilyrða sem Alþingi setti og batt í lögin var ekki um neitt samningsumboð og frelsi til samninga að ræða í þeim efnum. Ríkisstjórnin samdi og við það erum við að eiga núna og ég kom að því í ræðu minni einnig.

Af því að hv. þingmaður nefndi viðtalið við breska lögspekinginn þá var þetta í sjálfu sér ekki neinn miðilsfundur. Mér líkaði ágætlega þegar hann staðfesti þá skoðun okkar að það lægi bara einfaldlega þannig í því að bresk og hollensk stjórnvöld treystu ekki íslenskum dómstólum til að komast að hlutlausri niðurstöðu. Það voru mikil tíðindi og liggur bara fyrir að svo er, því miður.