138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er athyglisvert og ég vil þakka fyrir þessar upplýsingar þó að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson virki svolítið eins og þvottakonurnar góðu sem voru sendar til að þvo skítugu þvottana við Laugarnar. Mér finnst hann standa sig sæmilega í stykkinu við að bera blak af ráðherrum sínum. Það skiptir miklu máli að forsætisráðherra og fjármálaráðherra sitji í salnum af því að það kom skýrlega fram í síðustu viku að forsætisráðherra getur ekki tjáð sig um mál eða talað um þau nema fólk sé statt í salnum. Það má segja að það sama gildi um okkur. Ég hvet til þess að forseti þingsins fái forsætisráðherra hingað í salinn en láti ekki alltaf allt vera á herðum hæstv. fjármálaráðherra.

Síðan er annað. Síðan 2. umr. þessa mikilvæga og stóra máls hófst hafa margar mikilvægar upplýsingar verið dregnar fram. Sigurður Líndal kemur með mikilvægar ábendingar í grein sinni, við sjáum upplýsingar á forsíðu Morgunblaðsins frá Daniel Gros og einnig má benda á vangaveltur Stefáns Más Stefánssonar (Forseti hringir.) háskólaprófessors, sem er gríðarlega stórt mál, um hugsanleg áhrif þess ef neyðarlögin falla, hver áhrifin (Forseti hringir.) verða á Icesave-málið. Ég hvet því forseta til að gera hlé (Forseti hringir.) á umræðunni svo fjárlaganefndin fái tækifæri til að fara yfir þessar ábendingar.