138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að sinna þessu máli, hún hefur áhuga á því að fjölga störfum á landsbyggðinni.

Það er kannski ekki algjörlega rétt að ríkisstjórnin hafi ekki reynt að gera það, ég vísa sérstaklega til þess að síðasta ríkisstjórn og reyndar ríkisstjórnin þar áður hrundu í framkvæmd þremur sérstökum áætlunum sem miðuðu að því að fjölga störfum á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi og á Norðausturlandi. Það tókst mætavel og rétt að vekja eftirtekt á því að það átti kannski sinn þátt í því að árið 2008 var fyrsta árið — og ég vísa þá í tölur sem birtust á vef Byggðastofnunar — sem ekki fækkaði á landsbyggðinni. Ég tel að þessi þrjú verkefni hafi átt töluverðan hlut að því máli.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mikil þýðingarvinna er unnin hjá utanríkisráðuneytinu og sú vinna mun aukast verulega á næstunni vegna aðildarumsóknar okkar að Evrópusambandinu. Staðan er sú að allur meginþorri þessara þýðinga er unninn innan ráðuneytisins hjá sérstakri þýðingamiðstöð. Á þessari þýðingamiðstöð starfa núna 27 manns og verkefnum hefur á síðustu árum í smáum mæli verið vistað út fyrir stofnunina. Reynslan af því hefur verið góð, tel ég, og ég hef lagt áherslu á að það verði gert. Núna upp á síðkastið hefur það verið töluvert vaxandi.

Hv. þingmaður spyr hvort eitthvað af þeirri vinnu sem er innan þýðingamiðstöðvarinnar sé unnið utan Reykjavíkur og svo er. Eins og hv. þingmaður sagði hitti hún tvær, eins og hún orðaði það, fínar og frískar konur á Ísafirði sem biðu þá eftir því að þriðji stóllinn yrði fylltur. Frá því fyrr á þessu ári hefur verið starfandi útibú þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins á Ísafirði. Tveir voru ráðnir í það en við vildum ráða fleiri og talan þrír er ekkert endilega föst. Sömuleiðis hefur um ríflega tveggja ára skeið verið starfrækt útibú á Akureyri, í kjördæmi hv. þingmanns, þar sem fimm þýðendur hafa starfað.

Ég kannast líka við það sem hv. þingmaður nefndi, að á Seyðisfirði hefur verið áhugi á því að setja upp slíkt þýðingarver. Þar er einstaklingur sem hefur sýnt því máli mikinn áhuga og fyrrverandi þingmaður Arnbjörg Sveinsdóttir beitti sér af mikilli atorku fyrir því. Ég hef aldrei gleymt því máli, ég hef sjálfur verið í sambandi við þann ákveðna einstakling og mér finnst að menn eigi að njóta frumkvæðis í þeim efnum. Þó verður að segjast alveg skýrt að þær þýðingar sem eru unnar á vegum ráðuneytisins eru yfirleitt á mjög flóknum laga- og samningstexta sem þarf að standast miklar kröfur. Oft eru þær gerðar með því að bornir eru saman textar á ýmsum málum til að ná hinni réttu meiningu, en það útilokar alls ekki að hægt sé í auknum mæli að flytja störf sem tengjast þýðingum til staða utan Reykjavíkur. Sá möguleiki sem hv. þingmaður nefnir úr sínu næsta nágrenni er fyllilega til skoðunar í ráðuneytinu.

Það er hins vegar alltaf forsendan að gerð er krafa um að gæðin séu sambærileg og kostnaðurinn á hverja einingu má ekki vera meiri. Þá ber þess líka að geta að þýðingamiðstöðin hefur yfir að ráða miklu íðorðasafni og þýðingarhugbúnaði sem sjálfstætt starfandi þýðendur mundu fá aðgang að. Ég hef sem sagt fullan hug á því að auka þetta.

Hv. þingmaður spyr hvort gert sé ráð fyrir að störfum við þýðingar fjölgi. Það er gert ráð fyrir því að 24 nýir þýðendur verði ráðnir á næstu mánuðum. Ráðning 10 þýðenda er á lokastigi og gert er ráð fyrir því samkvæmt auglýsingunni að þeir verði ráðnir í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði. Um þá 14 sem líka verða ráðnir, væntanlega á næsta ári, hafa engar ákvarðanir verið teknar um hvar þeir verða staðsettir.