138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Evrópustaðlar um malbik.

155. mál
[15:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held áfram að spyrja um umferðaröryggismál. Ég skal alveg gangast við því að ég áttaði mig á að ég mundi gleðja hv. samfylkingarþingmenn og hæstv. samfylkingarráðherra gríðarlega því að hér er minnst á Evrópustaðla. Það er bara allt í lagi, menn skamma mig stundum fyrir að gera eitthvað annað, þetta er bara sérstakur dagur til að gleðja hv. þingmenn Samfylkingarinnar því að hér er ég að vísa í Evrópustaðla.

Við skulum vona að við getum nýtt okkur þá vinnu sem menn eru búnir að vinna í umferðaröryggismálum í Evrópu, ég veit alla vega ekki um neina betri leið til að mæla þetta en þessa Evrópustaðla. Ég tel að við eigum að miskunnarlaust að nýta okkur þetta, það er sama hvaðan gott kemur. Það er ekkert sjálfgefið að þetta sé allt gott en ég ætla það. Hins vegar heyrði ég á svari við fyrirspurninni sem ég var með áðan að það er mjög mikilvægt að við vinnum þetta skipulega og ég held að sé mjög mikilvægt að samgöngunefnd fari skipulega yfir þetta. Þar var ég að spyrja um göng, nú er ég að spyrja um vegi. Ég held að það væri alveg kjörið að vinna þetta eftir þessum stöðlum, þ.e. að þær úttektir sem hafa verið gerðar liggi fyrir í þinginu, séu teknar upp í samgöngunefnd og menn séu með mjög ítarlega stöðu á því við gerð samgönguáætlunar hvernig þessi mál standa. Ég ætla samt ekki að halda hér aftur ræðuna um mikilvægi umferðaröryggismála.

Ég spyr um það efni sem við notum mest í vegi á Íslandi, sem er malbik. Það er mjög mikilvægt að þeir vegir sem eru byggðir upp með þeim hætti séu vel gerðir en margt bendir til þess að ýmsu sé ábótavant hvað það varðar hér á landi. Mín tilfinning er sú og ég viðurkenni að ég hef svolitla reynslu af því úr borgarmálunum að mér finnst sérstakt hvað við þurfum að byggja þessa vegi oft upp, endingin er ekki góð að því er virðist. Ég veit að það er loksins verið að rannsaka þetta hjá Nýsköpunarsjóði eða það er styrkt af Nýsköpunarsjóði. Ýmislegt bendir til þess að þetta efni slitni fyrr hér en annars staðar og það er ekkert í lögum um staðla og hvernig við eigum að byggja þetta upp. Ég ætla þess vegna að spyrja tveggja spurninga og gleðja ráðherrann sérstaklega:

1. Hefur ráðherra kannað hvort hér á landi séu uppfylltir Evrópustaðlar um malbik?

2. Ef svo er ekki, hvers vegna?