138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi bréfaskipti hæstv. forsætisráðherra og forsætisráðherra Bretlands eru frá upphafi algert hneyksli og svar hæstv. forsætisráðherra sýnir auðvitað forakt eða fyrirlitningu Browns bæði á íslenskum stjórnvöldum og íslenskri þjóð. Förum aðeins yfir málið.

Hæstv. forsætisráðherra skrifaði forsætisráðherra Bretlands bréf 28. ágúst sl. Síðan liðu tveir og hálfur mánuður án þess að bólaði á svarbréfi og það var farið að minna mann svolítið á bókarheiti eftir Gabriel García Márquez, Liðsforingjanum berst aldrei bréf. En síðan kom loks bréfið eftir tvo og hálfan mánuð með fjórum stuttum málsgreinum og það hófst svona, mjög innilega: „Kæri forsætisráðherra.“ Í málsgreininni er um að ræða almennar þakkir fyrir bréfið. Í annarri málsgrein er greint frá því að nú sé hafinn frágangur á lánaskjölum af hálfu íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda, eins og það séu mikil tíðindi fyrir okkar hæstv. forsætisráðherra. Í þriðju málsgrein. grillir í efnisatriði og hvað er það? Jú, það er að lýsa yfir alveg sérstökum stuðningi og ánægju með það frumvarp, þann málatilbúnað sem íslenska ríkisstjórnin hefur uppi í Icesave-málinu. Þá gerðist það að lokum að það fannst einn stuðningsmaður við Icesave-málatilbúnað íslensku ríkisstjórnarinnar. Hann heitir Gordon Brown. Ætli megi þá ekki búast við því að einhvers staðar stutt á eftir lulli Alistair Darling, stuðningsmaður nr. 2 við málatilbúnað íslensku ríkisstjórnarinnar? Síðan kemur auðvitað þessi lykilsetning fjórðu málsgreinar bréfsins frá sjálfum Gordon Brown, sem er um það að hann vonist til þess að þessu máli verði lokið sem fyrst. Ekki vantar innileikann: „Kæri forsætisráðherra.“ Og bréfinu lýkur síðan þannig: „Yðar einlægur, Gordon“.

Þetta er allt og sumt, afraksturinn eftir öll þessi bréfaskipti. Tveir og hálfur mánuður líða og forsætisráðherra Bretlands hefur getað nýtt þann tíma til að ávarpa forsætisráðherra okkar innilega (Forseti hringir.) og kveðja hann sérstaklega innilega með þessum orðum: „Yðar einlægur, Gordon“.