138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum sennilega að lúta því að Evrópusambandið hættir aldrei að koma manni á óvart. Í raun og veru er verið að bjóða okkur upp á það að Evrópusambandið hótar að tengja saman Icesave og Evrópusambandsaðildarumsóknina. Við höfum stundum nefnt það hér í ræðustól Alþingis hvort þessi beinu tengsl væru ekki hér á milli og nú er í raun og veru búið að sanna málið með samþykkt Evrópusambandsins. Það sem Evrópusambandið er í raun að að segja er: Ef þið eruð tilbúin til að ganga svipugöngin og samþykkja Icesave-skuldbindinguna erum við tilbúin til að ræða við ykkur um Evrópusambandsaðildina. (Gripið fram í.) Þetta eru auðvitað klárlega hótanir.

Á fyrri stigum málsins var sagt sem svo að bein tengsl væru á milli þessa og lánveitinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna. Báðir þessir aðilar hafa svarið þetta af sér en Evrópusambandið kann ekki að skammast sín og gerir bara sérstakar ályktanir um þetta.