138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þessa umræðu. Auðvitað tala þingmenn eftir bestu vitund hverju sinni. Þess skal getið að þessar fréttir voru sóttar í Bloomberg-fréttaveituna, sem hefur hingað til verið nokkuð örugg heimild. En fyrst búið er að boða fund í utanríkismálanefnd á morgun er einhver hreyfing á málinu og fagna ég því og ég þakka þingmanninum fyrir að hafa upplýst þingheim um það og það er ágætt að hann hafi þessa tillögu þá orðrétta fyrir utanríkismálanefnd, ég fagna því.

Það breytir því ekki að með því að koma hér með málið fyrir þingið á ný, framkvæmdarvaldið og stjórnarflokkarnir eru komnir með þetta mál fyrir þingið á ný, erum við að tala um að hér sé verið að framselja löggjafarvaldið til Breta og Hollendinga, því það eru fyrst og fremst þeir (ÁÞS: Vill þingmaður hafa það sem sannara reynist?) sem fara fram á það að breyta lögunum. Það er lagt til að dómsvaldið verði selt til Breta og Hollendinga eins og ég hef farið yfir og ég get ekki betur séð en að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) sé komið, í það minnsta í huganum, til Brussel. (ÁÞS: Vill þingmaðurinn hafa það sem sannara reynist?) Já, ef það er komið á samningum …