138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er nefnilega nákvæmlega þetta sem verið er að gera hérna, þetta er óútfylltur tékki á framtíðina. Það sem við gerðum í sumar, svo ég endurtaki það aftur, var að útfylla tékkann. Við sögðum við Breta og Hollendinga og það segir skýrt í lögunum að Bretum og Hollendingum skuli kynntir þessir fyrirvarar og ríkisábyrgðin taki aðeins gildi ef þeir samþykkja þetta. Punktur. Það var ekkert annað sem átti að gera. Það var ekki, eins og kemur fram í fundargerðinni sem ég fór í gegnum áðan í ræðu minni, það var ekki tími fyrir eitthvert „tjatt“ um það hvað við eigum að segja um fundinn þegar fundinum lýkur. Við vorum ekki að biðja þá um að gera það. Við vorum að segja þeim að fara og kynna þessa fyrirvara, kynnið þá af öllum krafti. Við sögðum og hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði sig hásan hérna í allt sumar og sagði: Tökum sumarið í það, kynnum fyrirvarana, förum öll, náum að verja íslenskan málstað, náum að vinna fólk á okkar band.

Ég veit það bara þegar ég hef verið að tala fyrir þessum sjónarmiðum, íslenskum sjónarmiðum, við þingmenn frá Evrópu í gegnum NATO-samstarfið, hlusta menn í forundran og skilja bara ekki neitt í því að málum sé svona komið fyrir okkur. Þeir vita ekkert út á hvað þetta gengur, sem segir mér það að jafnvel upplýstir þingmenn í öðrum löndum hafa ekki hugmynd um það sem við höfum verið að leggja á okkur. Gleymið því ekki að í sumar þegar við vorum sem mest í þessari vinnu, fundum við það, það voru leiðarar í erlendum blöðum, það voru ummæli aðila úti í Evrópu sem bentu til þess að við værum að ná í gegn með okkar sjónarmið. En hvað gerist þá? Sama samninganefndin er send aftur og það er sagt: Afsakið ónæðið, Alþingi Íslendinga samþykkti þessa ólukkans fyrirvara, við gátum ekki staðið í vegi fyrir því en við skulum núna fara í gegnum þrjár leiðir til að (Forseti hringir.) rústa þeim. (Forseti hringir.) Það er það sem þeir gerðu.