138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með þeim þingmönnum sem benda á þá augljósu staðreynd í umræðu um þennan dagskrárlið að hér hefur verið ákveðið að setja á næturfund og til umræðu hefur jafnframt verið að funda hér fram á helgina, en þau mál sem er svo brýnt að komist á dagskrá þingsins sem allra fyrst eru rétt nýkomin fram. Nú er okkur tjáð að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi verið að afgreiða mál og samkvæmt þingsköpum þurfa lagafrumvörp að liggja frammi í a.m.k. tvær nætur áður en þau komast á dagskrá þingsins. Við skulum þá bíða eftir því að þau verði lögð fram og síðan þurfa að líða tvær nætur. Því hefur margoft verið lýst yfir af hálfu okkar í stjórnarandstöðu að við séum tilbúin til þess að gera breytingar á dagskránni til að þessi mál komist á dagskrá og í umræðu en það er alveg ástæðulaust á meðan svona stendur á að funda hér langt fram á nætur.