138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

bréfaskipti milli forsætisráðherra Íslands, Bretlands og Hollands.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir að það tók forsætisráðherra Breta og Hollendinga töluvert langan tíma að svara þessu bréfi en ég held að það sé ekkert óvanalegt í alþjóðlegum samskiptum að það taki einhvern tíma að svara slíkum bréfum þótt mér hafi fundist það óþarflega langur tími. (Gripið fram í.)

Hvort þessi bréf séu samhljóða get ég ekki séð. Ég sá ekki ástæðu til að svara bréfi forsætisráðherra Hollendinga. Aftur á móti taldi ég fulla ástæðu til að svara bréfi forsætisráðherra Breta vegna þess að auðvitað vildi ég ekki láta það kyrrt liggja sem fram kom þar, þar sem forsætisráðherrann lagði áherslu á hvert skuldbindingargildi samninganna væri. Ég vildi auðvitað undirstrika og árétta þá fyrirvara sem við höfum, að við höfum ekki viðurkennt, eins og margoft hefur komið fram, þessar skuldbindingar okkar gagnvart EES-tilskipuninni en stóðum raunverulega, eins og allir hér inni þekkja, ein þjóða að því að telja að við hefðum ekki greiðsluskyldu að því er varðar þær skuldir sem settar voru á innstæðu tryggingarsjóðs.

Hin spurningin um hvort önnur bréfaskipti liggi í ráðuneytinu að því er varðar þessa ráðherra þá er ekki svo. Öllu því sem ég hef undir höndum í þessu efni hefur verið komið á framfæri. En mér finnst stundum koma úr hörðustu átt þegar verið er að tala um mikið og lengi að hér séu leyniskjöl eða einhver bréf sem ekki eru birt og af hverju ég lét bréfin ekki strax af hendi opinberlega. Þetta er alls ekki langur tími, það eru örfáir dagar síðan ég fékk þessi bréf. Ég lét þau ekki strax af hendi vegna þess að ég þurfti sjálf að skrifa svarbréf og síðan vildi ég bíða eftir því hvort ég fengi fljótlega einhver viðbrögð við (Forseti hringir.) þessu bréfi mínu frá forsætisráðherra Breta, sem ég hef ekki fengið enn þá.