138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

bréfaskipti milli forsætisráðherra Íslands, Bretlands og Hollands.

[11:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi, svör svo langt sem þau ná. Ég ætla að endurtaka nokkrar spurningar sem ég fékk ekki svör við eða kannski að hnykkja á þeim. Hæstv. forsætisráðherra sagði að ekki væri um nein önnur samskipti að ræða milli þessara ráðherra og hennar. (Gripið fram í.) Varðandi önnur bréfaskipti vil ég ítreka spurninguna eða færa hana aðeins út: Getur verið um einhver samskipti við aðra ráðherra að ræða svo hæstv. forsætisráðherra viti?

Henni finnst það koma úr hörðustu átt að verið sé að spyrja um þetta hér. Hæstv. forsætisráðherra kvartaði hástöfum í gær yfir því að verið væri að draga í efa að hún hefði beitt sér af fullu afli fyrir íslenska hagsmuni. Ég vil segja við hæstv. forsætisráðherra: Ef við eigum að treysta því að hér sé allt uppi á borðum og að verið sé að gæta hagsmuna Íslands er nauðsynlegt (Forseti hringir.) að ekki þurfi að draga allar upplýsingar um samskipti og allar fundargerðir upp úr ríkisstjórninni. Ég hef t.d. í ræðum mínum beðið um fundargerðir af öllum fundum, t.d. hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur ekki séð ástæðu (Forseti hringir.) til að birta fundargerðir af öllum þeim (Forseti hringir.) fundum sem hann hefur átt. Vinsamleg ábending (Forseti hringir.) til hæstv. forsætisráðherra: Ef við eigum að treysta því að farið sé að (Forseti hringir.) fullum heilindum, þá verðum við að treysta því að það sé verið að birta öll gögn af fullum heilindum líka.