138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala mikið þessa dagana um virðingu fyrir lýðræðinu. Í gær létum við reyna á þetta lýðræði. Þeir lögðu fram tillögu um að farið væri að þessum hugmyndum þeirra. Þingið felldi þá tillögu. Það liggur fyrir alveg skýr vilji Alþingis til að halda þessari umræðu áfram til loka.

Mér þykir það leitt ef framsóknarmönnum finnst það dapurlegt að því sé haldið fram að Framsóknarflokkurinn sé leiddur af Sjálfstæðisflokknum en ég spyr hv. þingmenn Framsóknarflokksins: Samdi Sjálfstæðisflokkurinn ekki fram hjá þeim um hvernig þingi lauk í gær? Jú, það var þannig. Þannig kom hann fram við Framsóknarflokkinn. Hins vegar sá ég það líka í atkvæðagreiðslunni í gær að það fylgdi ekki mikill hugur máli hjá Framsóknarflokknum varðandi þessa tillögu því að eftir að hafa lagt hana fram, eftir að Framsóknarflokkurinn hafði verið aðili að framlagningu, teymdur af Sjálfstæðisflokknum, mættu ekki nema tveir framsóknarmenn til að greiða atkvæði.