138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og hér hefur verið rifjað upp var borin upp dagskrártillaga í gær. Hún var felld með 30 gegn 17 atkvæðum. Það segir eitthvað um vilja meiri hluta um hvernig við eigum að haga störfum okkar hér. Málþófið sem minni hluti þingheims beitir hér er náttúrlega hrein og klár kúgun og ekkert annað. (Gripið fram í.) Það er skrumskæling á þingræðinu (Gripið fram í.) og lýðræðislegri umræðu þegar þinginu er haldið í gíslingu málþófs (Gripið fram í.) dögum saman eins og nú er greinilega skipulagt … (Gripið fram í.) — Forseti, nú bið ég um hljóð. Ég er nær búin með tíma minn og mér finnst erfitt að fá ekki að ljúka máli mínu fyrir frammíköllum.

Ég mótmæli því að stjórnarandstaðan geti talað þannig að hún geti boðið meiri hluta þingheims þetta eða hitt. Það er þingræði í þessu landi og það er meiri hluti þingheims og vilji hans (Forseti hringir.) sem hlýtur að stjórna störfum þingsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)