138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í liðnum um fundarstjórn forseta til að mótmæla þeirri túlkun sem hæstv. utanríkisráðherra og einhverjir þingmenn stjórnarliðanna halda á lofti, að við séum að stunda hér málþóf. Við höfum talað í 2. umr. í tvo daga og við erum að byrja núna þriðja daginn. Ég hélt mína fyrstu ræðu kl. rúmlega eitt í nótt og þurfti að stoppa í miðri ræðu vegna þess að þingfundi var frestað og ræðu minni þar með líka. Ég get á engan hátt fallist á að ég stundi eitthvert málþóf og að ég fjalli ekki málefnalega um hlutina. Ég tel mig hafa komið fram með nýjar upplýsingar núna og það hafa fleiri komið fram með nýjar upplýsingar þannig að ég mótmæli því harðlega (Forseti hringir.) að hér stundum við eitthvert málþóf. Þetta tilboð stjórnarandstöðunnar um að færa mál á dagskrá er eingöngu til að leysa þann bráðavanda sem hlaðist hefur upp varðandi fjárlög.