138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka að ég þarf að fá upplýsingar mjög fljótt um hvort og hvenær verður af fundi þingflokksformanna. Ég þarf að vita hvort ég eigi að vera í húsinu eða sækja fund varðandi sjávarútvegsnefnd því ég hefði áhuga á að vera á báðum stöðum.

Varðandi dagskrána vil ég taka enn einu sinni fram að ef það er vilji stjórnarflokkanna að koma málum er tengjast fjárlögum og öðru áfram þá erum við tilbúin til að hleypa þeim með tiltölulega lítilli umræðu í gegnum 1. umr. til nefnda. Ég held að mjög mikilvægt sé að það gerist. Þá er hægt að fresta umræðunni um Icesave-málið og taka það strax upp og þessi mál eru komin til nefndarinnar.

Að lokum vil ég vekja athygli frú forseta á því að enginn stjórnarliði er á mælendaskrá.