138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs að nýju í þessu máli til að árétta nokkra þætti sem ég vék að fyrr í dag. Ég varpaði fram nokkrum spurningum til hv. þingmanna, sérstaklega þeirra sem áttu sæti í fjárlaganefnd þegar mál þetta sem hér liggur fyrir var afgreitt úr nefndinni. Þar sem ég hef ekki enn fengið svör við þeim spurningum sem ég bar fram ætla ég að leyfa mér að endurtaka þær og væri gott ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, gæti brugðist við annaðhvort í kvöld eða síðar í þessari umræðu.

Það sem ég vildi inna meiri hlutann í hv. fjárlaganefnd eftir voru ýmis atriði sem mér þykja fremur óskýr í þessu máli eftir því sem málið liggur fyrir. Það fyrsta sem ég vildi nefna er, eins og ég nefndi í ræðu minni sem ég flutti í hádeginu, spurningin: Var skoðað á einhverju stigi hvaða áhrif sú breyting hefur að fyrirvarar eru fluttir úr íslenskum lögum í viðaukasamningana sem lúta enskum lögum og verða túlkaðir fyrir enskum dómstólum? Ég spyr líka: Var þetta atriði skoðað með einhverjum hætti af hálfu fjárlaganefndar eða einhverra sérfræðinga á sviði ensks réttar sem nefndin leitaði til?

Í annan stað vík ég örlítið að gengis- og gjaldeyrisáhættunni. Það er vikið að þeim þáttum með nokkrum orðum í kafla í nefndarálitinu án þess að fjárlaganefnd komist að nokkurri niðurstöðu. Það eru reifaðar staðreyndir sem geta valdið óvissu og lesa má í gegnum nefndarálitið að auðvitað veldur sú óvissa vissum áhyggjum, en ég velti fyrir mér hvort hv. fjárlaganefnd hafi gert einhverja tilraun til að leggja sjálfstætt mat á þá þætti sem þarna er um að ræða. Gengis- og gjaldmiðlaáhættan er reyndar margþætt í þessu máli og töluvert að henni vikið í nefndarálitum hinna ýmsu minni hluta í efnahags- og skattanefnd sem fjárlaganefnd birtir með áliti sínu, en ekki verður ráðið af nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að hún hafi lagt neitt sjálfstætt mat á þessa þætti eða reynt að kryfja það sem kemur fram í álitunum frá þessum fjórum minni hlutum í efnahags- og skattanefnd. Þannig er ómögulegt að átta sig á því hver afstaða meiri hluta fjárlaganefndar er til þeirra atriða sem minni hlutarnir í efnahags- og skattanefnd eru að fjalla um.

Ég ætlaði að nefna líka vaxtaþáttinn. Hér hafa hv. þm. Pétur Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson fjallað töluvert um vaxtamál og gerðu það raunar í áliti sem þeir skiluðu til fjárlaganefndar. Ég er að velta fyrir mér að hvaða leyti fjárlaganefnd hefur farið yfir þá þætti og hvaða afstöðu fjárlaganefnd hefur til þeirra.

Í fjórða lagi, þannig að ég fari bara mjög hratt yfir sögu í stuttri ræðu, velti ég fyrir mér stjórnarskrárþættinum. Þar hafa í umræðunni komið fram tvö atriði sem valda vissum vafa um að frumvarpið sem hér liggur fyrir standist stjórnarskrá. Annars vegar er um að ræða framsal á dómsvaldi út fyrir landsteinana þar sem lagatextinn er orðaður með þeim hætti í frumvarpinu að það sem er kallað „ráðgefandi álit“ er í raun bindandi álit. Íslensk réttarregla tekur ekki gildi nema Hæstiréttur komist að dómsniðurstöðu í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Með þessu er endanlegt vald í þessum efnum, endanlegt dómsvald lagt í hendur EFTA-dómstólsins. Ég tel, og fór yfir það í fyrri ræðu minni hér í dag, að þarna séu með algjörlega nýjum hætti formuð tengsl íslenskra dómstóla og alþjóðlegra stofnana, með algjörlega nýjum hætti, fordæmalausum hætti, og ég held að þarna séum við eins og ég orðaði það í dag á gráu svæði, ef ekki kolsvörtu, varðandi fullveldi landsins og þær heimildir sem eru til framsals valds úr landi miðað við gildandi stjórnarskrá.

Hinn þátturinn sem varðar stjórnarskrármálið er auðvitað þær athugasemdir sem fram hafa komið, bæði í umræðum í þinginu og eins í greinum, m.a. Sigurðar Líndals sem töluvert hefur verið vitnað til í þessari umræðu. Þar er fjallað um þann vafa sem er á því að Alþingi hafi heimild til að skuldbinda íslenska ríkið til að veita ríkisábyrgð á jafnóljósum skuldbindingum og hér um ræðir.

Ríkisábyrgðir eru eftir því sem ég best veit alltaf takmarkaðar með einhverjum hætti. Við þekkjum það og hv. þm. Guðbjartur Hannesson þekkir það úr fjárlagavinnunni að það er oftast nær takmarkað við hámarksupphæð og fleiri skilyrði. Í þessu máli er ekki um neina hámarksupphæð að ræða vegna þess að sá höfuðstóll sem við byrjum með tekur á sig vexti sem geta vaxið út í hið óendanlega ef illa fer. Eins er tímarammi ekki fyrir hendi því að ríkisábyrgðin átti aðeins að gilda í sjö ár samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi og samþykkt voru 28. ágúst en það tímamark verður afnumið ef þetta frumvarp nær fram að ganga.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson getur velt þessu fyrir sér á m.a. þeim forsendum sem Sigurður Líndal prófessor hefur komið orðum að en þarna er auðvitað verulegur vafi fyrir hendi og ég velti fyrir mér hvaða rök meiri hluti fjárlaganefndar hafi fyrir þeirri skoðun sem kom fram frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, sennilega í umræðum um störf þingsins einhvern tíma í vikunni, um það að meiri hlutinn hefði ekki áhyggjur af þessum þætti.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég spyrja meiri hlutann í fjárlaganefnd og oddvita meiri hlutans, hv. formann fjárlaganefndar Guðbjart Hannesson, um mat meiri hlutans í fjárlaganefnd á endurheimtum á eignum Landsbankans. Við höfum heyrt tölur frá skilanefnd Landsbankans um það hversu hátt hlutfall sé líklegt að endurheimtist en við höfum jafnframt heyrt og vitum að það er veruleg óvissa um hversu hratt þetta endurheimtist. Varðandi þann þátt, þ.e. hversu hratt eignasafn Landsbankans getur farið að skila einhverjum peningum sem geta komið til niðurgreiðslu eða lækkunar á Icesave-skuldbindingunni, sé ég ekki í nefndaráliti meiri hlutans og man ekki til þess að það hafi heldur verið í greinargerð með frumvarpinu neinar áætlanir um það hversu hratt þetta mundi skila sér. Við vitum að það skiptir gríðarlegu máli af því að í upphafi málsins stöndum við með skuldbindingu sem er á áttunda hundrað milljarða króna, 700 milljarðar plús. Menn hafa nefnt töluna 750 og eitthvað, 760 og eitthvað milljarða króna, ég man ekki nákvæma tölu enda skiptir það kannski ekki öllu máli í þessu samhengi.

Það skiptir auðvitað miklu hversu hratt þessi upphæð lækkar. Ef hún t.d. lækkar lítið á næstu árum safnar þessi háa upphæð, 700 milljarðar plús, 5,55% vöxtum á þessum tíma. Ég skaut á það þegar ég velti þessum málum fyrir mér hér að ef t.d. eignirnar mundu ekki skila sér með þeim hætti að unnt væri að lækka greiðslubyrðina fyrr en t.d. eftir sjö ár gæti höfuðstóll lánsins verið kominn yfir þúsund milljarða króna þegar við eigum að fara að borga árið 2016.

Ég vísa í það í þessu sambandi að menn hafa nefnt að það taki eignir úr búum af þessu tagi oft mörg ár að skila sér vegna þess að það er ekki hægt að byrja að úthluta úr búinu fyrr en búið er að ganga frá ýmsum dómsmálum og deilumálum sem upp kunna að koma. Ég mundi halda að þessar eignir gætu hugsanlega, ef vel gengur, farið að skila sér eftir þrjú ár en ég hef heyrt frá skilanefnd (Forseti hringir.) í fréttum að það sé ekkert ósennilegt að það geti liðið 5–7 ár (Forseti hringir.) þangað til þessar eignir fari að skila sér þannig að hægt sé að lækka (Forseti hringir.) höfuðstól Icesave-skuldbindinganna.