138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir spurningarnar. Varðandi afstöðu stjórnarþingmanna og flokkanna eru þetta eins og kom réttilega fram hjá hv. þingmanni spekúlasjónir okkar, því að satt best að segja er erfitt að fá vinstri grænna upp í pontu til að útskýra skoðanir sínar á þessu máli. Ég tel reyndar að maður megi merkja það hjá samfylkingarþingmönnum að þeir telji þetta kannski ekki vera lítið mál og þeim finnist það erfitt, eins og okkur öllum, en mér sýnist að þeir tengi þetta með einum eða öðrum hætti aðganginum að Evrópusamfélaginu, að alþjóðasamfélaginu, og þeir telji jafnvel að okkur muni takast í framtíðinni einhvern veginn að bjarga þessu máli fyrir horn sem mér finnst vera mjög sérkennileg afstaða.

Aftur á móti finnst mér erfiðara að túlka afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli. Fjölmargir þingmenn þess ágæta flokks hafa einmitt viðrað mjög sterkar skoðanir sínar á þessu máli og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem er hér í salnum, hefur m.a. gert það. Ég hefði svo sem mjög gaman af því að heyra sjónarmið sem flestra þingmanna Vinstri grænna og taldi einmitt í ræðu minni að það væri mikilvægt bæði fyrir þá en auðvitað líka fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að koma hreinlega í pontu og útskýra hver fyrir sig þetta mál, ekki bara fyrir okkur stjórnarandstöðuþingmenn af því að þeir geta alveg haft þá skoðun að það þýði ekkert að tala við okkur, að þeir séu bara á réttri leið en við á rangri, en ég heyri alls staðar þar sem ég kem meðal fólks að sumt skortir rök frá sínum þingmönnum, frá þeim flokkum sem það kaus í vor, og ég tel að það væri mjög æskilegt að þeir kæmu hér upp og útskýrðu afstöðu sína í þessu máli.