138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa komið upp og aðeins rætt um fundarstjórn forseta. Ég tek undir fjölmargt af því sem þeir hafa sagt.

Klukkan er núna tíu mínútur yfir sex og það er talað um að fundað verði í kvöldmatarhléinu um hvernig kvöldfundi verði háttað. Ég hefði mikinn áhuga á að fá a.m.k. að vita, þó að við fáum ekki að vita hversu lengi fundurinn mun standa, hvenær kvöldmatarhléið verður og þá nákvæma tímasetningu auk þess sem ég, þótt það varði kannski ekki beint fundarstjórn forseta, verð að taka undir að það er mjög ánægjulegt að fá stjórnarliða upp í andsvör. Það eru ákveðin vonbrigði, vegna þess að það auðveldar málið aðeins fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, að stjórnarliðar virðast raunar líka hafa gefist upp á því að reyna að sannfæra stjórnarandstæðinga — við höfum ekki gefist upp á að reyna að sannfæra þá — um að það sé kannski eitthvert vit í því sem þeir eru að gera. Það er það sem við höfum kallað eftir, að fá stjórnarliða (Forseti hringir.) til að koma í ræðustól og í andsvör vegna þess að þessi rökræða hlýtur að þurfa að fara fram. Mér finnst synd að sjá þessa uppgjöf hjá stjórnarliðum og kannski (Forseti hringir.) styður það rök okkar stjórnarandstæðinga um að þetta mál sé hörmulegt.