138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er í rauninni sorgarsaga hvernig á þessu máli hefur verið haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar því að með auknum upplýsingum til þingheims og almennings hefði hugsanlega mátt efla enn frekar samstöðuna í þeirri baráttu okkar að verja íslenska hagsmuni í tengslum við Icesave-málið. Ég held líka að það sé alveg ljóst að ekki verður eingöngu hægt að vísa þessu máli til hæstv. fjárlaganefndar þegar 2. umr. er lokið. Við vitum að hv. fjárlaganefnd þarf að fara yfir margháttaðar tillögur og ábendingar fræðimanna í samfélaginu eins og Sigurðar Líndals, Stefáns Más Stefánssonar og ekki síður Ragnars Halls, miðað við grein Morgunblaðsins í dag. Það er því mikil vinna sem bíður fjárlaganefndarmanna.

Ég tel líka einboðið, eftir samskipti milli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur fyrr í dag, að við í utanríkismálanefnd fáum fjármálaráðherra á okkar fund til þess að fara yfir þau samskipti sem hafa verið á milli hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra við sína kollega.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann — í ljósi reynslu sinnar á þessu haustþingi og þeirrar litlu þátttöku sem verið hefur af hálfu hæstv. ráðherra í umræðu um málið allt, ég endurtek að ég held að frekari þátttaka ráðherra í umræðu um þetta mál mundi greiða fyrir þingstörfum, mundi upplýsa ákveðna þætti sem við erum sífellt að kalla eftir — sé það bjartsýnn að hann telji að þingið geti enn breytt þessu máli, að við hér í stjórnarandstöðunni, með því að standa þá vakt sem við erum gera núna, getum fengið stjórnarliða á okkar band og þar með talið ráðherra í ríkisstjórninni í þá veru að breyta málinu eins og það liggur fyrir núna? Telur hann það mögulegt og þá m.a. í gegnum þær þingnefndir sem málið verður að fara til, ekki bara fjárlaganefndar og utanríkismálanefndar heldur líka efnahags- og skattanefndar?